Nýjast á Local Suðurnes

Frá ritstjóra: Eru fimm ár í fallbaráttu ásættanlegur árangur?

Það hefur lengi tíðkast víða erlendis að fjölmiðlar gagnrýni árangur knattspyrnuliða ef illa gengur. Á Spáni og Englandi má sjá fyrirsagnir í miklum æsifréttastíl ef árangur liða stendur ekki undir væntingum. Þetta hefur hinsvegar ekki tíðkast hér á landi af neinu viti enda kannski erfitt við að eiga í landi þar sem örfá sveitarfélög skríða yfir 20.000 íbúa.

Gagnrýni Local Suðurnes eftir tapleik Keflavíkur gegn Víkingum á dögunum, sem byggð var á samtölum við stuðningsmenn liðsins, hefur meðal annars orsakað það að stjórnarmenn knattspyrnudeildarinnar svara ekki spurningum sem lagðar eru fyrir þá og leggjast sumir svo lágt að kalla miðilinn, sem þó vex í aðsókn með hverjum deginum sem líður, “skítamiðil.”

fyrirsogn

Real Madrid var engin miskun sýnd af fjölmiðlum þegar liðið féll úr leik í Meistaradeildinni

Ekki hlustað á viðvörunarbjöllur

Rekstur knattspyrnudeildar Keflavíkur er á við meðalstórt fyrirtæki, deildin veltir um 200 milljónum króna á ári. Eini munurinn er sá að meðalstór fyrirtæki hafa að jafnaði ekki nokkur þúsund stuðningsmenn á bakinu, sem margir hverjir hafa alist upp með félaginu, æft og spilað með því og lagt mikla vinnu og tíma í að hjálpa til við reksturinn, sem oft á tíðum hefur verið þungur.

Það ætti því að vera sjálfsögð kurteisi þeirra sem stjórna að hlusta á þá stuðningsmenn sem hafa eitthvað til málanna að leggja, en segja má að viðvörunarbjöllur hafi byrjað að hringja snemma á árinu þegar mótframboð var sett fram gegn sitjandi stjórn – Menn með aðrar skoðanir á málum vildu fá tækifæri til að taka við keflinu og gera hlutina að einhverju leiti öðruvísi en þeir sem enn sitja við völd. Þarna skapaðist tækifæri til að gera breytingar sem ekki var nýtt.

Auglýsing: Skelltu þér í borgarferð – Þú átt það skilið!

Á svipuðum tíma var töluverð umræða á meðal stuðningsmanna um að liðið sem teflt yrði fram á þessu tímabili væri engan veginn nógu gott til að keppa um titla á meðal þeirra bestu, það sem helst var rætt var að varnarlína liðsins væri langt í frá nógu sterk fyrir Pepsí-deildina – Það hefur sannað sig að þessi gagnrýni, sem ekki var brugðist við átti fullan rétt á sér.

Krafa að Keflavík sé á meðal bestu liða landsins

Árangur liðsins í deildarkeppni síðasta áratuginn eða svo hefur verið í slappara lagi ef frá er talið árið 2008 þegar liðið endaði í öðru sæti deildarinnar. Liðið hefur verið viðloðandi botninn síðustu fjögur ár í röð sem ætti samkvæmt öllu að vera óásættanlegt fyrir lið í sveitarfélagi sem telur um 15.000 manns,  sérstaklega ef litið er til þeirrar hefðar sem liðið hefur á bak við sig.

Það er oft sagt þegar talað er um íþróttir að það snúist ekki allt um sigur, íþróttir snúast um að taka þátt og vera með. Gera sitt besta. Það má gera ráð fyrir því að leikmenn séu sannarlega að gera sitt besta en það sama er ekki hægt að segja um þá sem eru við stjórnina – Það á ekki að vera nóg fyrir Keflavík að „vera með“ í deild þeirra bestu. Krafan er einföld, liðið á að vera í baráttu um titla.

Árangur Keflavíkurliðsins í knattspyrnu á þessu tímabili (ef árangur má kalla) hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Það er þó enn von fyrir liðið að halda sæti sínu á meðal þeirra bestu en hvernig sem fer verður hlutskipti liðsins eitt af neðri sætum deildarinnar, fimmta árið í röð.

Það eru breyttir tímar í heimi knattspyrnunnar og hugsunarháttur núverandi stjórnar er gamaldags og eins og dæmin hafa sannað undanfarin ár ekki vænlegur til árangurs. Eru fimm ár í röð í fallbaráttu ásættanlegur árangur? Eða er kominn tími til að hleypa nýju fólki að?