Nýjast á Local Suðurnes

Frá A-Ö: Suðurnesjaþingmenn lítið beitt sér fyrir svæðið – Flestir vilja á þing aftur

Það styttist í kosningar til alþingis og flokkarnir keppast við að boða til prófkjöra eða stilla upp listum um þessar mundir. Suðurnesjamenn hafa aldrei átt jafnmarga þingmenn og nú eða sjö talsins, þar af er einn ráðherra af Suðurnesjum, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Mismikið hefur borið á umræddum þingmönnum og baráttumálin hafa verið af misjöfnum toga.

Ef litið er á málaskrá og fyrirspurnaskrá þingmanna á vef alþingis kemur í ljós að fáar tillögur og fyrirspurnir Suðurnesjaþingmanna snúa beint að málefnum sveitarfélaga á Suðurnesjum, þó hafa þeir flestir barist fyrir flutningi Landhelgisgæslu Íslands til Suðurnesja.

Ásmundur berst fyrir bættum samgöngum til Eyja

Ásmundur Friðriksson hefur ekki verið fyrsti flutningsmaður að neinu málefni sem snýr beint að Suðurnesjum, hann hefur þó barist ötullega fyrir bættum samgöngum til og frá Vestmannaeyjum og verið áberandi í umræðum um innflytjendamál.

Ásmundur hefur í gegnum árin verið meðflutningsmaður að tillögu um flutning Landhelgisgæslu Íslands til Keflavíkurflugvallar. Hann hefur líkt og aðrir þingmenn kjördæmisins tekið virkan þátt í umræðum um tvöföldun Reykjanesbrautar, eftir stofunum „Stopp – Hingað og ekki lengra hópsins!“

Oddný vildi efla atvinnu og samfélag á Suðurnesjum

Oddný G. Harðardóttir hefur setið á þingi síðan 2009 og var fjármála- og efnahagsráðerra frá 2011-12, hún lagði meðal annars fram þingáætlunartillögu um eflingu atvinnu og samfélags á Suðurnesjum, árið 2014. Lítið hefur heyrst í Oddnýju varðandi tvöföldun Reykjanesbrautar, en hún var fyrsti flutningsmaður að tillögu um heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Á þeim sjö árum sem Oddný hefur setið á þingi hefur hún lagt fram fjölda fyrirspurna um fjárhagsvanda Reykjanesbæjar og íbúa á Suðurnesjum, þá hefur hún einnig lagt fram fjölda fyrirspurna um málefni Helguvíkurhafnar.

Páll Jóhann vill innanlandsflugið til Keflavíkur

Páll Jóhann Pálsson, hefur verið meðflutningsmaður að tveimur tillögum sem snúa beint að Suðurnesjum, tillögu að flutningi Landhelgisgæslu Íslands til Keflavíkurflugvallar og tillögu um skoðun á kostnaði við flutning innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar.

Flestir þingmenn svæðisins vilja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja

Flestir þingmenn svæðisins vilja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja

Páll Valur vill Landhelgisgæsluna til Suðurnesja

Páll Valur Björnsson hefur verið áberandi í umræðum um málefni fatlaðra og barna og lagt fram fjölda fyrirspurna um málefni tengd högum þeirra, lítið hefur þó farið fyrir Páli í málum sem snúa beint að Suðurnesjum, utan þess að hann var meðflutningsmaður að tillögu um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.

Ragnheiði hefur orðið lítið ágengt í Helguvíkurmálum

Ragnheiður Elín Árnadóttir er Iðnaðar- og Viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Íslands og án efa valdamesti Suðurnesjamaðurinn á þingi, hún hefur þó lítið beitt sér fyrir svæðið að öðru leiti en því að hún hefur undanfarið tekið virkan þátt í umræðu um tvöföldun Reykjanesbrautar – Þó ekki, að neinu marki, fyrr en eftir stofnun „Stopp – Hingað og ekki lengra!“ hópsins.

Ragnheiður Elín hefur einning barist fyrir uppbyggingu í Helguvík, sú barátta hefur þó skilað litlu til hafnarinnar, sem berst í bökkum um þessar mundir. Hún og aðrir þingmenn hafa verið gagnrýndir af sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum fyrir að sýna þessum málum lítinn áhuga.

Lítið hefur gengið í málefnum hafnarinnar

Lítið hefur gengið í málefnum hafnarinnar

Fánalög og tæknifrjóvganir hafa verið helstu baráttumál Silju Daggar

Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur verið áberandi í umræðum um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja en hún er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, Silja Dögg hefur  verið mest áberandi í umræðum um fánalög og aukinn stuðning við tæknifrjóvganir. Silja Dögg hefur verið ötul við að leggja fram fyrirspurnir á alþingi er snúa að málefnum sem tengjast Suðurnesjasvæðinu og þá helst að málum er snúa að starfsemi á Keflavíkurflugvelli.

Vilhjálmur barist fyrir einkavæðingu Fríhafnar og sölu áfengis í verslunum

Vilhjálmur Árnason hefur verið áberandi í umræðunni um sölu áfengis í verslunum og meðal annars lagt fram frumvarp þess efnis, hann hefur einnig verið áberandi í umræðu um einkavæðingu Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem hann er fylgjandi.

Vilhjálmur er eini þingmaðurinn af Suðurnesjum sem á sæti í Umhverfis- og samgöngunefnd, sem sendi frá sér nefndarálit þess efnis að tvöföldun Reykjanesbrautar ætti heima í núverandi samgönguáætlun, það gekk þó ekki eftir.

Vilhjálmur hefur verið áberandi í umræðum um tvöföldun Reykjanesbrautar undanfarin misseri, eins og flestir aðrir þingmenn svæðisins.

Flestir ætla að bjóða sig fram aftur

Páll jóhann Pálsson mun ekki bjóða sig fram aftur til setu á alþingi, en hann hefur setið á þingi síðan 2013. Silja Dögg Guðmundsdóttir sagðist í samtali við Suðurnes.net í júní síðastliðnum ætla að bjóða sig fram aftur. Það sama sagði Ásmundur Friðriksson í spjalli við blaðamann, hann sagðist vera að skoða af fullri alvöru að bjóða sig fram gegn Ragnheiði Elínu í oddvitasætið.

Fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins að Vilhjálmur Árnason hyggðist bjóða sig fram á ný. Oddný Harðardóttir var á dögunum kjörinn formaður Samfylkingarinnar, það má því fastlega gera ráð fyrir því að hún gefi kost á sér til þingsetu á ný. Grindvíkingurinn Páll Valur Björnsson situr á þingi fyrir Bjarta framtíð, ekki er vitað hvort hann muni bjóða sig fram á ný, en skoðanakannanir hafa sýnt að flokkurinn á undir högg að sækja um þessar mundir og ólíklegt verður að teljast að Páll næði kjöri.