Nýjast á Local Suðurnes

Föstudagspistill Árna Árna – Súrir pungar og merktir pelsar

Matseðillinn á Alþingi, súrir pungar í Hveragerði og pelsar koma við sögu í föstudagspistlinum að þessu sinni.

Að leggjast inn á sjúkrahúsi er ekki góð skemmtun, í hugum flestra má segja það. Annað var upp á teningnum hjá manni í Norfolk í Englandi, hann vildi ekki útskrifast. Hann átti ekki í nein hús að vernda og lá á sjúkrahúsi í 2 ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanna að losa sig við hann. Maðurinn er vel á sig kominn og þurfti ekki á læknisþjónustu að halda. Stjórnendur sjúkrahússins neyddust til að leita til dómstóla til að láta bera hann út með valdi. Það var samþykkt og honum hent út. Hvað er þægilegra en að vera vakinn með morgunmat, þveginn þvotturinn heitar máltíðir og alltaf gott með kaffinu. Það er spurning hvort að þetta sé fordæmisgefandi þar sem húsnæðisvandi í Reykjavík er mikill. Borgarstjórnarmeirihlutinn sem lofaði íbúðum fyrir láglaunafólk og þá sem þurfa á félagsþjónustuíbúðum en hefur ekki staðið við þau loforð, gætu ef til vill beint skjólstæðingum sínum á að gefa sér upp kvilla og neita síðan að yfirgefa sjúkrahúsin. Ríkisstjórnin gæti skákað borgina með því einu að senda háttvirtann heilbrigðisráðherra dulbúinn sem dr. Hock og hlaupið um sjúkrahúsin eftir að ljósin eru slökkt í von um flótta undan vofunni sem fer á kreik er skyggja tekur.

arni arna keflavikurn

Ótrúlegt hvað lítið þúfa getur velt þungu hlassi. Í vikunni vakti utanríkisráðherrafrúin okkar, Ágústa Johnsen mikla athygli fyrir glæsileika í Amelíuhöll konungsfjölskyldunnar í Danaveldi. Ágústa var í sérsaumuðum blúndukjól með perlufesti frá Chanel. Myndir af henni vöktu mikla athygli og ef ég má vera hreinskilinn þá hugsaði ég hve frábært það hefði verið ef klæðskerinn hennar Ágústu tæki að sér að hanna og sauma á sjálfa forsetafrúnna. Guðni og frú eru yndisleg hjón, en á fyrsta degi heimsóknarinnar til Danmerkur mætir forsetafrúin okkar, þessi elska í yfirhöfn sem minnti á rósóttan stofusófa hjá venjulegri bandarískri vísutölufjölskyldu á sjöunda áratugnum. En hvað um það, á mynd með Ágústu er maður sem virðist vera í hvítri hettupeysu. Ég fékk símtal frá vinkonu sem var að dáðst að ráðherrafrúnni en vakti athygli mína á klæðaburði mannsins sem var ekki beint í takt við glæsileika annarra. Eftir símtalið sé ég að Tobba Marinós hafði vakið athygli á þessu á facebooksíðu sinni. Var eins og Tobba hafi kastað sér fyrir úlfahjörð, viðbrögðin voru með þeim hætti. Í ljós kom að maðurinn var í grænlenskum þjóðbúningi. Ég verð nú bara að bakka Tobbu upp í þessu máli, þjóðbúningurinn er bara ekkert smart og engan skyldi undra útganginn á manngreyinu. Við búum við tjáningarfrelsi og ef Tobba og ég erum á því að þessi hettupeysa sé ekkert til að hrópa húrra yfir þá er það bara í lagi.

Þá er Alþingi komið saman eftir langt og gott jólafrí. Stelpurnar í mötuneytinu hafa staðið í ströngu að sjóða saman matseðilinn fyrir næstu daga, enda nauðsynlegt að þingheimur nærist í vinnunni. Það sem má finna á matseðli vikunnar er hrátt nautahakk beint frá bónda, brúnegg, enda hægt að fá mikið magn fyrir lítið verð. Nú þar sem engan ferskan fisk er að fá nú orðið verður boðið upp á skreið, súran hákarl og sýgna grásleppu að hætti vestfirðinga. Faglegur ráðgjafi stelpnanna í eldhúsinu er sælkerinn Sigmundur Davíð. Hann er annálaður smekkmaður þegar kemur að séríslensku fæði og þar sem allir eru í átaki eftir jólahátíðina er íslenskt skyr í eftirrétt ósykrað og súrt eins og framsóknarmenn vilja hafa það.

Meiru stuðboltarnir bændur og búalið á Suðurlandinu. Þar ætlar karlpeningurinn að setja á svið leikritið „full monty“ og eru ófeimnir við að fækka fötum. Karlarnir eru á öllum aldri,stærðum og þá á ég við hæð og þyngd og án efa líka á milli fóta. Ef þetta er ekki gráupplagt fyrir kvenfélögin í landinu að halda í road trip í Hveragerði til að njóta þá veit ég ekki hvað. Ég heyrði að strákarnir væru það góðir að þeir geta auðveldlega brætt frostrósir með framkomu sinni.

Þvílík snilld að eyða sýnilegri fátækt í landinu með því að dressa liðið upp í pelsa. Ég meina hver er ekki til í pels? Ég er viss um að hörðustu vegan – týpurnar eiga pels í felum. Það er auðvitað frábært að stuðla að þöggun með þessum hætti, hugsaði ég. Nei þá var ég víst að misskilja. Þetta góðverk gekk víst út á það að sérmerkja fátæka í íslensku samfélagi. Pelsarnir spreyjaðir með bleiku svo þeir sem þá nota skeri sig úr. Er þetta til að verslunareigendur geti haft auga með vasaþjófum ? En þegar allri kaldhæðni er sleppt þá var þetta tiltekna mál hálf kjánalegt með öllu. Eigum við ekki bara að gefa í safnanir larfa með málingarslettum eða flíkur með matarblettum sem ekki fara úr í þvotti. Eigum við ekki að sýna öllum þjóðfélagshópum virðingu? Fyrir mér hljómaði þetta svokallaða góðverk illa í mínum eyrum.

Góða helgi