Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni spyr: Verður hinn nýji Hitler genabreyttur krúttlegur leikskólakennari?

Föstudagur og ég er í ljómandi helgarstuði og birti hér föstudagspistil.

Þessi búvörusamningur er að setja allt á annan endan, ekki bara á Alþingi og meðal almennings, heldur líka meðal dýra. Bóndi einn var með fréttirnar á fjósinu á dögunum og þar var verið að fjalla um búvörusamninginn og áður en bóndinn veit af réðist á hann kýr, alveg bandbrjáluð yfir þessum samningi og hvernig er komið fyrir bændum og búarliði. Samningurinn er auðvitað ein mesta vitleysa og því skiljanlegt að blessuð dýrin séu öskuíll. Ekki nóg með það að aumingja kýrin sé að mjólka nokkrum sinnum á sólarhring svo MS geti miðboðið neytendum og samkeppnisaðilum, þá er það auðvitað út úr kú að misbjóða neytendum með ofursköttum á vissar innfluttar tegundir af landbúnaðarvörum. Er ekki orðið tímabært að hætta forsjáhyggjunni og félagslegum greiðslum til bænda og finna stærðarhagkvæmni í greininni ? Það þótti ekkert tiltökumál í sjávarútvegnum á sínum tíma en hefur skilað árangri.

Árni Árna

Árni Árna

Talandi um dýr, hvað finnst fólki um það að nú eigi að búa til geirfuglinn í tilraunaglasi, frjógva egg og láta gæsir verpa? Erum við komin á þann stað að útdauðar dýrategundir poppi upp á nýjan leik eins og ekkert sé? Við höfðum nú gaman af því þegar eðlurnar voru sprelllifandi á nýjan leik á hvítatjaldinu en glottum yfir vitleysunni – en núna gætu bandbrjálaðir vísindamenn framkvæmt verknaðinn. Hvar stoppa þessi vísindi? Er von á fósturvísi Stalíns og Hilters í móðurkviði? Er hægt að tryggja að nýji Hitler verði genabreyttur sem krúttlegur leikskólakennari ?

Ómar Ragnarsson gaf nýverið út bók þar sem hann greinir frá örlögum Geirfinns. Þetta rúmleg fjörutíu ára gamla sakamál virðist vera upplýst af hálfu leyti. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að vera ástvinur Geirfinns, það gleymst að hann átti konu og börn.Það hefur verið slegið á létta strengi með þetta mál lengi, saklausum refsað sem sýnir að lögreglan réði ekki við rannsóknina, eða var kannski einhverjir innan lögreglunnar tengdir málinu? Ég hef ekki lesið bókina, en heyrði viðtal við Ómar og ég er ennþá fullur efasemda. Hvernig væri að maðurinn sem Ómar vitnar í gæfi sig fram og viðurkenndi gjörðir sínar. Ómar segir að þessi maður hafi ekið á Geirfinn á Reykjanesbrautinni, tekið upp líkið og hent í hraungjótu. Allt í góðu með það, en það voru tveir menn með Geirfinni á Reykjanesbrautinni á sendibíl þegar atvikið átti sér stað og þeir þegja þunnu hjóði. Hvaða glæpastarfsemi var þarna í gangi? Hver ekur niður gangandi vegfarenda og skellir í skottið og losar sig við líkið? Þetta er bara hálf saga miðað við frásögn Ómars og hann þykist ekki vita hvað gaurinn heitir. Er ekki kominn tími á að ástvinir Geirfinns fái sálarró og séu upplýst um sannleikann?

Það trúa því ekki margir en það er gaman að taka þátt í pólitík. Það sem ber þó að hafa í huga er að kafa í eigin hugsjónir, kynna sér stefnur flokkanna og finna sér farveg. Það kemur fyrir að sumir klikka á þessu. Gott dæmi um það er Sindri Einarsson sem gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Mér dauðbrá og hélt bara að þarna væri á ferðinni klóni úr fortíðinni. Hlera múslima, banna mótmæli, víkingasveitin mætt ef nokkrar hræður koma einhversstaðar saman. i hvaða veruleika lifir þessi maður. Það er tjáningarfrelsi og trúfrelsi í landinu samkvæmt stjórnarskrá. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og það er nokkuð ljóst að Sindri gefur kost á sér fyrir rangan flokk. Það er komin einhver þjóðhreyfing fyrir útlendingahatara. Vill Sindri ekki líka,líkt og í norður Kóreu að allir karlmenn í landinu beri sömu klippingu og Guðni Th forseti? Krúnuraka lýðinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um mannréttindi og frelsi einstaklingins til athafna, sama hver trúin er, kynhneigð eða kynþáttur. Ég vona að sjálfstæðismenn óvart „gleymi“ Sindra þegar í kjörklefan er komið.

Icelandair hefur kallað rannsóknarnefnd flugslysa sér til hjálpar vegna veikinda starfsmanna í háloftunum. Ekki hefur verið sannað að málið tengist flugvélum fyrirtækisins og það furðulega er að veikindin sækja aðeins á yngri starfsmenn. Rannsókarnefndin hefur sent starfsfólk í læknisskoðun og blóðprufur en ekkert finnst af starfsfólkinu. Er þetta ekki bara hin týpíska þynnka? Það tekur á að vinna upp þolið þegar hægt er að taka tollinn svokallaða í lokhvers vinnudags.

Viðreisn byrjar ágætlega í skoðunarkönnunum þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hverjir verða frambjóðendur þess nýja flokks. Mælist jafn lítill og Samfylkingin sáluga. Það er talað um að Viðreisn sé hópur sjálfstæðismanna sem flúið hafa gamla flokkinn sinn. Það er auðvitað svo að í eins stórum flokki og Sjálfstæðisflokki eru margir félagsmenn og því marga að finna sem ganga með „þingmanninn“ í maganum. Vegna stærðar flokksins komast í flestum tilfellum þeir hæfustu að hverju sinni og þeir sem hafa upp á minnst að bjóða sitja eftir með sárt ennið. Þá er um að gera að fara í fýlu og stofna nýtt afl. Það sem vekur mesta undrun mína á fyrrum flokksfélögum mínum er að taka til starfa í flokki sem fjármagnaður er af tveimur ríkum einstaklingum sem hafa bara eitt markmið, að ganga í ESB. Viðreisn mun bara snúast um það málefni á þingi þrátt fyrir að formaðurinn fari eins og köttur í kringum heitan graut afspurður um málefnið. Ég spyr, eru margir spenntir að ganga í ESB? Bretar eru að slíta sig frá sambandinu sem logar í átökum og fyrir liggur að það er veikt og laskað.

Góða helgi