Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Sigur Liverpool tímamótauppgötvun í læknavísindunum?

Vinstri kona í Sjálfstæðisflokknum, þvottaplönin í Reykjanesbæ og losti á hvíta tjaldinu eru meðal þess sem ber á góma í pistli vikunnar.

Lostafull atlot, pyndingar, ást, drama, játningar og fleira tilfinningarklám streymdi yfir mig í tæpar tvær klukkustundir þegar ég var dreginn í bíó. Fifty grey shades darker er komin í bíó stelpur. Ég og önnur hommalufsa fórum og með okkur í salnum voru 4 aðrir karlmenn, sem lufsuðust á þessa mynd með konum sínum. Annars var salurinn fullur af konum sem sleiktu út úr og öfundin leyndi sér ekki. Það getur verið flókið að fá konur og homma til að þegja í meira en tvær mínútur, en þessi ræma náði því alveg. Ég verð samt að segja að ég var ekkert að missa mig yfir ræmunni, en það er eitt gott við hana, aðalleikkonan er með lítil brjóst, samt falleg og kynæsandi. Útlitsdýrkun er mikil og ungar stúlkur glíma við fyrirmyndir með þvílíkar svalir að þetta kallar á brjósklos upp úr fertugu. Stelpur þarna sjáið þið að stærðin skiptir ekki máli, sko þegar kemur að brjóstunum. Þið eruð fullkomnar eins og þið eruð, ekki láta lýtalækna hrifsa af ykkur fermingapeninginn.

arni arna keflavikurn

Ég veit ekki betur en að Liverpool sé búið að vera eins og ungabarn með magakveisu, skituna upp eftir bakinu. Svo vinnur liðið einn leik og það er eins og tímamóta uppgvötun í læknavísindum. Það var bara gubbað yfir samskiptamiðla lofræðum og egoimsa. Fagnaði fólk svona ákvaft þegar börnin þeirra höfðu fyrst vit á því að láta ekki vaða í bleyjuna og settust á koppinn ?

Það var svo mikil gúrkutíð sl. sunnudag að dv.is tók upp á því að fjalla um aukaleikarana í Friends. Sjónvarpsþættir sem hver einasta sál hefur séð oftar en mömmu sína. Til að toppa gúrkutíðina þá kom Magnús vinur okkar og fréttaritari Stöðvar 2 með innslag um nokkra kalla sem hittast reglulega og spila snóker. Fréttin var álíka spennandi og þegar ljósastaurarnir á Patreksfirði voru skoðaðir í Landanum á dögunum.

Einkennilegt að við höfum ekkert með það að segja hverjir heimsækja landið okkar. Í fréttum í þessari og síðustu viku er greint frá því að fjölskyldumeðlimir geta ekki sótt ástvini sína heim, þar sem þeir eru ekki búsettir innan Schengen. Fólk þarf að sýna fram á eignir, atvinnu eða nám og fjölskylduhagi til að fá vegabréfsáritun. Já efnaminni atvinnuleysingjar og einstæðingar eru ekki velkomnir til Íslands. Þá fer maður nú bara að hugsa, er þetta eitthvað verra en að Trump banni múslimum að koma til USA? Er þetta ekki mismunun líka í okkar nafni en við höfum ekkert með það að gera? Hugsum aðeins meira. Þarna eru á ferðinni einhverjir milliríkjasamningar við lönd sem við erum ekki með sendiráð í og framvegis, sem splúndra fjölskyldum. Koma í veg fyrir að ástvinir geta hist – en á sama tíma á Íslandi er kona ein brjáluð yfir því að hún gat ekki notað útsölu-gjafabréf á þrívíddarmynd í Sambíóunum. Stofnuð var síða til að hvetja landsmenn til að sniðganga Sambíóin vegna mannvonsku. Þvílíkt lúxus vandamál í lífi þessarar konu. Ef mannkynið væri bara að takast á um gjafabréf og lélegan afslátt á útsölum, spáið í því hvað lífið væri ljúft, já það væri eins ljúft og hjá þessum hjónum sem tímdu ekki að borga fullt verð í bíó.

Það er ekki frásögum færandi, en ég lagði leið mína í minn gamla heimabæ, Reykjanesbæ fyrr í vikunni. Alltaf gaman að koma „heim“ nema hvað að veðrið var fallegt og ég ákvað að skella mér á bílaþvottaplanið á Olís. Reif upp skottlokið og fór úr skóm og í gúmmítútturnar. Það er nefnilega þannig að þegar aldurinn færist yfir og maður er hættur að nenna að veltast um í Herjólfsdalnum á þjóðhátíð, þá fá þjóðhátíðar-gúmmítútturnar nýtt hlutverk. Þær eru notaðar við þrif á bílnum. Ég úðaði allar felgurnar með hreinsiefnum og bílinn sjálfan. Tók fram fötuna, sápuna og svampinn, helti sápu í fötuna og gekk að þvottaburstanum og skrúfaði frá. Nei það var bara ekkert vatn í boði á þvottaplaninu.Ég henti öllu í skottið aftur og brunaði á N1. Sama sagan þar á bæ, ekkert vatn á þvottaplaninu og við erum að tala um að það var 7 gráðu hiti úti – vorlaukarnar í Grafarvoginum eru byrjaðir að blómsta en vatn á þvöttaplön í Keflavík er víst fjarlægur draumur. Góð ráð voru dýr svo ég varð að henda bílnum í bílaþvottastöðina hjá N1. Þar er lítið herbergi þar sem farið er inn í til að greiða fyrir þvottinn. Nei þar var starfsmaður N1 að reykja. Ég óð í gegnum skítabræluna að sjálfsalanum ekki í góðu
skapi. Til að toppa þetta þá var ekki valmöguleiki að kaupa nema dýrasta þvottinn í stöðinni á tæp tvö og átta. Já í um 20 þúsund manna bæjarfélagi er ekki hægt að þrífa bílinn nema rífa upp veskið og svíða rækilega í rassgatið eftir það og þú þarft að henda fötunum þínum í þvott eftir að vaða reykherbergi starfsmanna til að greiða fyrir herlegheitin. Í borginni er svokölluð þjónusta á bensínstöðvum. Um leið og hitastigið fer yfir frostmark skottast starfsmennirnir glaðir í bragði með slöngur og kústa, tengja og skrúfa frá vatninu.

Næstkomandi laugardagskvöld verður bein útsending í sjónvarpi þar sem landsmenn geta hringt inn og styrkt aumingja heildsalana í landinu. Sjáið ekki fyrir ykkur lítil börn brjóta baukana sína til að leggja málefninu lið. Í Fréttablaðinu í vikunni var greint frá því að aumingja heildsalarnir í landinu þurfi nú að bretta upp ermar og leggja á sig að þrýsta á betri verð frá byrgjum sínum. Hvers vegna? Jú samkeppnin við Costco er yfirvofandi. Fréttin var skrifuð líkt og heildsalar ættu skilið smá samúð fyrir það eitt að leita betri kjara fyrir neytendur í landinu. Hvað hafa þeir verið að gera hingað til? Jú auðvitað er þessi frétt blekking. Álagningin liggur hjá þeim sjálfum. Ef þeir hefðu kært sig um sanngirni á markaði þá væri staðan önnur. Það er jú þannig að þegar fólk hefur meira fé á milli handana þá er einkaneysla meiri. Ég hlakka til að versla á sanngjörnu verði hjá Costco.

Ekki vissi ég að flokkssystir mín Ásdís Halla fyrrum bæjarstjóri Garðarbæjar og eigandi einkarekins sjúkrahótels (var það síðast þegar ég vissi) væri komúnisti. Hún vill fækka vínbúðum, selja bara tóbak í Vínbúðum stytta opnunartíma og skella í lás um helgar. Er Ásdís ekki örugglega á sama tímabelti og við hin? Er 1915 hjá henni ? Hvað með sykur Ásdís? Hvernig væri að félagsmálaráðherra skammtaði 2 kg af sykri á hverja fjölskyldu á mánuði. Við stæðum í röðum eftir úthlutun. Eða ein 2 lítra gosflaska á fjölskyldu? Það er svo margt í samfélaginu sem er okkur óhollt. Þá á að keyra á forvarnir, umræðu og stuðla að hugarfarsbreytingu. Við sáum það þegar leyfa átti bjórinn að þeir sem voru á móti héldu nánast að samfélagið myndi lamast. Nei drykkjarmenning okkar hefur þróast og þegar upp er staðið þá er sjálfræði ríkjandi og ég vil ekki að ríkisvaldið ráði því hvar ég kaupi áfengi,hvenær sama hvort það sé á virkum degi eða á laufléttum laugardegi. Ég vona hreinlega að Ásdís Halla kveðji Sjálfstæðisflokkinn og snúi sér í forsjáhyggju og þröngsýni á vinstri vængnum.

Góða helgi