Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni pælir í mótmælum, prestum og Pírötum

Öskrandi ferskur föstudagspistill enda ekki annað hægt, janúar að líða undir lok sem segir okkur að það styttist í vorið góða sem bíður handan við hornið.

Árni Árna

Árni Árna

Kári Stefánsson rakar að sér undirskriftum fyrir bættu heilbrigðiskerfi. Eitt er víst að þörf er umbótum í kerfinu, það er á hreinu og hef ég áður staðfest það hérna á facebook út frá eigin raun. En það er athygisvert að á árinu 2o15 fóru 140 milljarðar í heilbrigðismál og bætt verður við þá upphæð á þessu ári. Hvar ætlar Kári að fá 50 milljarða í viðbót ? Hvar ætlum við að skera niður ? Í mennamálum eða í velferðakerfinu ? Sala á eignum er skammgóður vermir og dugar skammt. Það er gott að koma sér í mjúkinn með þeim hætti sem Kári gerir nú, en ég gæti til að mynda stofnað síðu og safnað undirskriftum „öryrkjar og eldri borgarar með 400.000 kr. í mánaðarlaun“ auðvitað næði ég mörgum til að kvitta upp á það. Múgæsingur er auðvelt fyrirbæri eins og við sjáum nú í kringum Kára, ég bíð bara eftir að hann tilkynni forsetaframboð. Heilbrigðiskerfið er botnlaus tunna þegar kemur að fjármagni, er ekki tímabær uppstokkun á kerfinu og vinnubrögðum – það er eitthvað mikið að.

Voðaleg leiðindi er þetta í garð forsætisráðherra þótt hann leiti af makaskiptum. Það eru hinir ýmsu makaklúbbar í gangi en það vill engin leyfa Sigmundi greyinu að vera með. Borgarfulltrúar í meirihlutanum eru ekki allir sáttir við afskipti Sigmundar í skipulagsmálum borgarinnar. Það er kannski sterk vísbending til borgaryfirvalda þegar forsætisráðherra vill makaskipti á lóðum til að koma í veg fyrir skipulagsslys á besta stað í miðbænum. Hvað mig varðar þá finnst mér byggingin ekkert slæm sem til stendur að reisa á hafnargarðs-lóðinni, en það er kannski full stórt miðað við rýmið þarna.

Í vikunni voru mótmæli við Landsbankann við Austurstræti. Þar safnaðist saman slatti af fólki og mótmælti umdeildri sölu á Borgun. Það er öllum frjálst að mótmæla, það er hluti af okkar tjáningarfrelsi og allt í góðu með það. Nema hvað ég horfði á fréttirnar frá þessum viðburði og þar kom fram að mótmælendur vildu afsögn bankastjóra og kölluðu það siðleysu að bankastjórinn hafi selt án þess að ræða málið við bankastjórn. Ég er nú ekki sérfræðingur um söluna á Borgun en ég veit að Landsbankinn er sjálfstæð eining og salan ekki borin undir fjármálaráðherra eða ráðuneytið sá ég einhversstaðar. Anna sem getði trúverðugleika mótmælenda að engu er að bankastjórnin ákvað án efa söluna og bankastjórinn er bara starfsmaður hennar og afhverju ætti hann að segja af sér fyrir að þau verk sem honum er falið að vinna? Og í öðru lagi í viðskiptum er tekin áhætta, hefði þessi hópur mótmælt sölunni ef fréttirnar snérust um að þeir sem keyptu Borgun töpuðu milljónum ? Ganga ekki viðskipti út á að græða eða tapa ? Maður veit aldrei fyrir víst er það nokkuð ?

„Last longer – go vegan“ er ný auglýsingaherferð dýraverndunarsamtakana Peta. Þarer því haldið fram að grænmetisætur duga lengur í rúminu en kjötæturnar. Þetta er nú án ef óvísindaleg rannsókn, eða svo vona ég allavega. En það er alveg á hreinu að ég ætla ekki að sleippa steikinni fyrir einhverja 2-3 mínútur í viðbót í rúminu, læt bara þessar 3 mínútur duga mér.

Mikið hefur nú tognað úr Njarðvíkinni þarna suður með sjó síðan ég bjó þarna. Klerkurinn ekur 800 km. á mánuði – ég vissi ekki að það væri svona langt út í hesthús og hvað þá að sóknin tæki þátt í bensínkostnaðinum. Sr. Baldur er fínn maður og á allt gott skilið en kannski ekki 1.1 milljón í aksturstyrk. Það getur stundum verið gaman af commentakerfunum, en það var einn sem kastaði einu fram sem hljóðaði svona: Þessi klerkur les líklega oftar bankabókina sína en Biblíuna.

Athyglisvert að sjá að kerfið getur verið meingallað í Danmörku þrátt fyrir oft á tíðum níðingsskrif íslendinga sem þar búa um gömlu heimahagana. Ekki nóg með að ef flóttamaður kemur me meira fjármagn en 130 þúsund kr. með sér inn í landið þá verður allt umfram það gert upptækt, þá hefur 17 stúlka verið kærð fyrir að verjast nauðgara. Já hún notaði piparúða sér til varnar sem er auðvitað til háborinnar skammar og verður kærð fyrir þennan hrottaskap í garð kynferðisafbrotamannsins. Þetta er auðvitað bilun og minnir á eitthvað Islam- ríki þar sem kúgun kvenna er allsráðandi.

Píratar mælast með 40% fylgi og ekki annað hægt en að taka ofan fyrir þeim. Eina frumvarpið sem flokkurinn hefur lagt fram á þing er um að þegar borin er upp vantraust á ríkisstjórnina að atkvæðagreiðslan fari fram skriflega – þar að segja ekki á gegnsæjan hátt eins og nú er gert. Þessi flokkur gefur sig út fyrir frelsi á netinu, lögleiðingu kannabis efna og bara almennt frelsi til einstaklinga er með kaptein Birgittu við stýrið. Nema hvað að Birgitta hefur gefið það út að hún ætlar að losa flokkinn við alla þá sem eru fjálslyndir – já flokkur sem reistur er á frelsi til almennings vill ekki sjá einhverja frjálslyndispúka. Ætli þetta sé ekki tilraun kapteinsins að halda í vinstra fylgið sem kemur frá Samfylkingu og Bjartri framtíð. Leiðilegt að Píratar ætli að leggjast á vinstri síðuna, það hefur nú ekki kunnan góðri lukku að stýra, sérstaklega ekki fyrir þjóðina.

Góða helgi