Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni – Meiri hávaði af borgarlínu en herflugvél

Reykvíkingar eru í tilfinningarlegu uppnámi eftir lágflug herflugvélar frá kanadíska flughernum yfir miðborginni um síðustu helgi. Hervélin var á flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli og var flugið hluti af sýningunni. Samskiptamiðlar loguðu eftir flugið og kveiktu sumir hverjir á kerti til að minna á frið og aðrir náðu ekki upp í nef sér yfir þessum gjörningi. Ég segi nú bara hvað er eiginlega að fólki? Við Suðurnesjamenn bjuggum við kanann á Keflavíkurflugvelli í áratugi og svo í framhaldinu af því herdeildir við loftrýmisgæslu. Þá má ekki gleyma farþega- og vöruflutningavélum sem lenda þar allann sólarhringinn og sleikja húsþökin hjá íbúum. Suðurnesjamenn taka ekki eftir þessu lengur frekar en þeir sem búa í nágrenni við Reykjavíkurflugvöll. Ég spyr bara hvernig verða viðbrögðin hjá Reykvíkingum þegar lestarnar rúlla stanslaust fram hjá eldhúsglugganum með tilheyrandi nið verði borgarlínan að veruleika.

Viðreisn og Björt framtíð eru gegnar til liðs við Dag Eggertsson borgarstjóra. Ráðherrar flokkana funduðu með borgarstjóra þar sem húsnæðisstefna var kynnt, án samskipta við Sjálfstæðisflokkinn. Það liggur fyrir að flokkarnir ætla í Reykjavíkurlistaframboð með Samfylkingunni og nú á að nota kraftinn til að halda Degi við völd í Reykjavík. Þessir þrír flokkar búa við mikið fylgistap og telja greinilega styrk í því að halda Degi á floti og Gísli Marteinn verður án efa forseti borgarstjórnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort borgarbúar falla fyrir töfrabrögðum flokkana sem heyja lífróður sinn í íslenskum stjórnmálum,

Ísbúðir borgarinnar eru troðfullar, enda komið sumar. Unglingarnir sem þar vinna standa í ströngu að moka ísmeti í mannskapinn og standa sig vel. Ég lagði leið mína í eina slíka ísbúð í vikunni með góðri vinkonu. Biðin var talsverð enda fæstir í gamla góða ís í brauðformi eins og áður var. Núna grípur mann hálfgerður valkvíði þegar horft er á úrvalið. Við vorum búin að bíða dágóða stund, en loksins voru tvö númer á undan okkur. Kallað er upp 90 en þá voru sex guttar með sama númerið, hálf ísbúðin ruddist að afgreiðsluborðinu. Nú jæja hugsaði ég með mér og sá fram á að 92 (okkar númer) væri skammt undan. En þá er kallað upp 91 og þar eru fjórar stelpur sem voru með sama valkvíða og ég. Urður Aska vildi Huppuljúfmeti með jarðaberjum, Trumpa Eik vildi eitthvað annað og Loppa Lúða var í vandræðum með að ákveða sig. Það tók 30 mínútur að afgreiða þessi tvö númer sem á undan mér voru. Gamli piparkallinn úr Grafarvoginum (ég) var orðinn brúnaþungur í biðinni, en þegar upp var staðið tók ég gleði mína á ný, þar sem ísinn var frábær og brosmilda starfsfólkið hjá Huppu standa sig gríðarlega vel í ísbrjálæði landans í 12 gráðu sumarblíðunni.

Aðförin að einkabílum borgarbúa heldur áfram hjá borgarstjórnarmeirihlutanum. Nú á að skattleggja umferðaröryggi með því að setja gjald á nagladekk. Ónýtt gatnakerfi er víst nagladekkjunum að kenna, en ekki engu viðhaldi og endurbótum né því handónýta tjöruleðjumalbiki sem notað er. Ólafur hjá FÍB benti á það í útvarpsviðtali í vikunni, hve mikil vitleysa þetta gjald er. Borgaryfirvöld hafna fjármagni í samgöngumál til að kúga hinn almenna borgara yfir á reiðhjólahnakkinn eða inn í strætó. Samt getur fólk sem stundar vaktavinnu ekki nýtt sér strætó um helgar þar sem þar er sofið út nánast fram á hádegi og þess má geta að miðstöð Strætó í Mjóddinni opnar ekki fyrr en í hádeginu á sunnudögum. Strætó má með sanni kalla hobbý þjónustu eftir hentugleika, bara ekki hentugleika borgarbúa. Væri ekki nær að bæta þjónustustigið, bæta við vögnum auka ferðir og hætta borgarlínu-bullinu sem mun aldrei kosta rúma 60 milljarða, kostnaðurinn á eftir að fjúka auðveldlega upp í 100 milljarða eða meira og þetta er fjármagn sem er bara ekki til.

Um 63% landsmanna telja lögregluna ekki í stakk búna til að takast á við hryðjuverkaógn á Íslandi, samkvæmt óvísindalegri könnun útvarpsþáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Það fer hrollur um mann yfir umræðunni á Bretlandi um niðurskurð til löggæslumála. Við höfum gengið í gegnum það sama, fækkun lögreglumanna og fjársvelti. Tilfinningin er að þessar nokkrar hræður sem sinna löggæslumálum séu á hlaupum á eftir grashausum með plöntur í bílskúrum sem eru leyfðar í mörgum vestrænum ríkjum. Er ekki kominn tími til að stokka upp, auka fjármagn og tryggja eftir bestu getu að þessi vá sem hryðjuverk eru geti ekki átt sér stað hérlendis.

Góða helgi