Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Kúkandi túristar hinn nýji vorboði Íslands

Nú er elskulega lóan bara hluti af fortíðarþrá okkar um vor og hlýindi. Nýr vorboði hefur tekið við kyndlinum – já bóndi einn sem kom að túrista við að hringa niður einum stórum í innkeyrsluna hjá sér tók því með jafnaðargerði og sagði þetta vera vorboði. Já þegar það er komið það gott hitastig að túristar treysta sér til að vera með buxurnar á hælunum, þá vitum við að vorið er á næsta leyti.

Árni Árna

Árni Árna

Komd-út í plús, var sönglað í auglýsingu í den frá Plúsferðum. Ég gerði það bara alveg óvænt í vikunni. Það voru sirka 12 vinir mínir á snapchat sem fóru á tónleikana með Simply Red. Þessir vinir greiddu án efa góðar upphæðir til þess eins að snappa allt kvöldið. Ég sat bara heima í stofu og naut tónleikanna án þess að greiða fyrir miðann. Ég veit að ég er engu skárri en aðrir þegar kemur að snappinu – en þetta er orðið þannig að fólk eyðir stórum hluta tímans á hinum ýmsu viðburðum til að snappa, og gleyma að njóta. Ég þakka þessum vinum fyrir að hafa sparað mér miðakaupin.

Mikið er til af grasösnum, einn þeirra lét ljós sitt skína í umferðinni í vikunni. Lögreglan stjórnaði umferð um Kringlumýrabraut og Miklubraut til að greiða úr umferð fyrir sjúkrabíl í neyðarakstri með mikið veikan einstakling. Einn grasasninn var ósáttur við aðgerðir lögreglu enda væri verið að tefja hann. Lögreglan gerði honum grein fyrir ástæðunni og honum var bara skítsama- hann var að flýta sér. Til að toppa þetta þá bað hann lögregluna um að koma sér í burtu. Mikið hlýtur þessum grasasna að líða illa í lífinu, ég vona að hann finni hamingju, samkennd og lífsgleði fljótlega og hætti að leggja líf annarra að veði með yfirgangi og frekju.

Forsetakosningarnar eru orðnar svo óspennandi. Það liggur fyrir að Guðni Th. verður næsti forseti íslenska lýðveldisins. Skotin og skætingurinn er hafin og Davíð kominn í sitt gamla form með að taka menn á taugunum og Guðni sem hefur greiðan aðgang að fjölmiðlum hvítþvær hendur sínar. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að forsetakosningar eiga að fara fram af virðingu frambjóðenda í garð hvors annars. Ekki um leiðindi, hver og einn á að kynna framtíðarsýn sína í embætti, áherslur á málaflokka sem þeim hugnast og þá að sjálfsögðu af heilindum og viðurkenna þá líka fyrri hugsjónir og gera það bara með reisn. Eitt skil ég ekki í þessu að það eru bara skoðanakannanir nær daglega. 365 miðlar virðast vera með sólarhringsvakt í gerð þeirra. Hefði skilið þetta ef vart væri marktækur munur á milli frambjóðenda, en það er bara engin spenna í þessu. Það er alveg eins hægt að hætta þessu bara og eyða tíma og peningum í eitthvað annað, þjóðin hefur greinilega gert upp hug sinn.

Já það hefur myndast hópur fólks í Grafarvogi og Grafarholti sem vilja rífa upp Reykjavíkurrætur sínar og sameinast Mosfellsbæ. Ég veit að að þessi stóru úthverfi eiga sér ekki borgarfulltrúa og þessi hverfi eins og önnur úthverfi eru hálf utangátta hjá miðborgar-borgarfulltrúum. Það væri gaman að vita hvaða borgarfulltrúar hafi komið upp í Grafarvog á þessu ári. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta, að vogurinn minn fagri tilheyri nýju sveitarfélagi. Ég hef hingað til viljað sameina höfuðborgarsvæðið í eina stóra höfuðborg Íslands. Já ég vil Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ og Mosfellsbæ í eina sæng með Reykjavík. Það er ótrúlegur kostnaður sem fer í bæjarstjóra- og bæjarstjórnarlaun á höfuðborgarsvæðinu. Túristar eru gapandi hissa að geta staðið klofvega með annan fótinn í Kópavogi og hinn í Reykjavík. Ég fylgist með, kannski maður gefi bara kost á sér sem bæjarfulltrúti í Grafarvogsbæ – ekki ætlum við að kalla okkur mosfellinga.

Já hneigðir okkar eru misjafnar. Í vikunni var viðtal við ungan mann í sænskum ljósvakamiðlum sem má ekki finna blómailm þá kveiknar líf á miðsvæðinu. Hann elskar að vera nakinn í náttúrunni og við það eitt að faðma að sér grjót þá fer mjólkursamlagið í gang og dælir frá sér mjólkinni bara eins og engin sé morgundagurinn. Þá finnst honum gaman að nudda trjágreinum um kinnarnar að aftanverðu. Þetta er með sanni náttúruhneigð sem hlýtur að vera nýtt fyrirbæri í flóru hinsegin fólks. En ég vona að ég fari ekki að hugfallast fyrir stórgrýti og hálf ormaétnum hríslum sprautandi út í loftið eins og brunaslanga.

Ég sendi öllum íslenskum sjómönnum mínar bestu kveðjur í tilefni sjómannasunnudagsins – njótið helgarinnar.

Góða helgi