Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Er ekki alveg örugglega 21. öldin?

Ég vona að það hafi enginn misst af Jólalandanum að kvöldi annars dags jóla. Þar var fjallað um Mávastell, ljósastaura á Patreksfirði og piparkökuhús, svo eitthvað sé nefnt. Það má með sanni segja að spennan var þrúgandi og maður var límdur fyrir framan viðtækið. Landinn kann svo sannarlega að taka púlsinn á jólastemmingunni í samfélaginu.

arni arna keflavikurn

Það var víst ekki vinsælt meðal ferðamanna að streyma í kirkjugarðana um jólin. Já ferðaþjónustan reyndi að beina ferðamönnum í borginni í kirkjugarðana til að njóta ljósadýrðarinnar. Ég er nú bara sáttur við að hinir föllnu fái ró. Er ekki á því að kirkjugarðar eigi að vera viðkomustaður ferðamanna, þangað fer maður til að votta ástvinum sínum virðingu. Ég vona að þessi tilraun verði ekki reynd aftur að ári.

Skoðanir fólks á mönnum og málefnum eru æði misjafnar. Það sannaðist þegar hlustendur útvarps Sögu völdu Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrum forsætisráðherra sem mann ársins. Ekki það að mínar skoðanir séu ávallt þær réttu, en stundum líður mér eins og við höldum fyrsta apríl oft og iðulega á hverju ári. Þetta er auðvitað bara algjört grín. Staðreyndirnar um Sigmund tala sínu máli. Burt séð hvar frúin geymir arfinn sem er gefinn upp á skattaskýslu, þá voru það lýginn, fléttan með forsetaembættið og fleira sem gerði útaf við hann. En Sigmundur sér ekkert að framferði sínu og greinlega ekki þessar örfáu hræður sem hlusta af þvermóðsku á þröngsýnina og afturhaldssemina á útvarpi Sögu.

Um áramótin hækkaði áfengi og tóbak verulega og svo dæmi sé tekið hækkaði íslenska neftóbakið um 60%. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með flokkinn minn, Sjálfstæðisflokkinn. Við fórum í gegnum kosningabaráttuna með það að vopni að nóg væri komið af skattpíningu og græðgi ríksins í veskjum landsmanna. Þessi hækkun er í mesta falli kjánaleg þegar um er að ræða 30 milljarða rekstrarafgang. Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins barðist allt síðasta kjörtímabil fyrir áfengi í verslanir. Hann vildi samkeppni á þessum markaði, eyða gamalli úreltri forræðishyggju sem einkennt hefur íslendinga í þessum málum. Því miður hefur þetta strandað á vinstri pólnum á þingi eins og með margt annað þar sem frelsi og ábyrgð einstaklingsins er annarsvegar. En Sjálfstæðisflokkurinn, eins og aðrir flokkar í gegnum tíðina hækka alltaf áfengi og tóbak og því sýnir flokkurinn af sér sömu forræðishyggjuna og vinstri flokkarnir og því miður gefa til kynna að það sé lítill áhugi fyrir frjálsri sölu áfengis í verslunum. Hvenær fáum við alvöru frjálslynda þingmenn sem sjá hversu mikil vitleysa það er að ríkið stundi smásölu á áfengi í vínbúðum, ilmvötnum og nammi í flugstöðvum? Ég hreinlega velti fyrir mér hvort það sé ekki alveg örugglega tuttugasta og fyrsta öldin? Hvernig væri ef ríkið tæki yfir smásölu á salernispappír og dömubindum? Það eru einhverjar krónur að fá þar, þetta eru víst jú nauðsynjavörur.

Völvan hjá DV hefur rýnt inn í nýja árið sem speglast í kristalskúlunni. Ég tel hana samt vera að líta í baksýnisspegilinn því hún sér þingmann verða sér til skammar og ónáða farþega í flugvél. Það er nú eftirminnilegt þegar ónefndur þingmaður ældi yfir sætisfélaga sína í flugi. Sjónarvottar sögðu hann vel í glasi, en þingmaðurinn reyndi að sannfæra þjóðina um skyndilega magakveisu í háloftunum. Ég vona að enginn af núverandi þingmönnum leiki þetta eftir. Það er hálf neyðarlegt að leitast eftir umboði kjósenda og æla svo yfir kjósendur. Völvan segir að þessi þingmaður biðjist afsökunar, fari í meðferð og snúi aftur til starfa. Ég fór auðvitað að hugsa og eitt nafn kom upp í huga minn, nú er bara að bíða og sjá hvort ég hafi rétt fyrir mér.

Það er algjör óþarfi að fara í ræktina lengur. Fyrir utan sokkabuxur sem halda inni pjöllubumbunni, meðfærilegum magabeltum, Kog brjóstahöldurum, sem lyfta alveg frá hnjám upp á hæstu hæðir, þá er komin önnur tær snilld á markaðinn. Nú er hægt að líma upp undirhökuna með skemmtilegu límbandi sem hert er að fyrir aftan hnakka, og þá er líka hægt að fá límband til að strekkja upp bingó- slappleikann á upphandleggjum. Já til hvers að svitna í ræktinni þegar allt er bara meðfærilegt með nýjustu tækni. Stelpur svo er bara að stóla á dræma lýsingu á djamminu og þið verðið eftirsóttar. Versta við þetta er að ég hálf vorkenni gaurum sem fara heim með konum sem missa sig í þessari tækni. Ná þeim úr, brjóst og rass hrapa í átt til jarðar, bingóið líka og áður en þú veist af stækkar ummál andlitsins um helming. Þetta er eins og að kaupa bíl í myrkvi,veist ekkert ástandið á lakkinu fyrr en daginn eftir.

Kryddsíldin var ágæt, gaman að sjá formenn stjórnmálaflokkana á nálum í von um að styggja ekki neinn ef ske kynni að til samstarfs kæmi. Benedikt frá Viðreisn sló mig samt út af laginu. Í lok þáttarins voru formennirnir beðnir um að hæla næsta manni. Katrín Jakobsdóttir sat við hlið hans og eina sem Benedikt gat sagt við Kötu var að hún sé sæt og minnti hann á látna leikkonu. Þrátt fyrir að við Kata erum aldrei sammála í pólitíkinni þá er hún heilsteypt, greind hugsjónarkona. Hrós Benedikts fannst mér vera eins og hefði kannski heyrst á miðri síðustu öld, lyktar af karlrembu.

Góða helgi