Nýjast á Local Suðurnes

Forstjóri Gentle Giants: “Erum skuldlaus við Reykjanesbæ með öllu”

Stormur SH 333 við Skipasmíðastöð Njarðvíkur rétt áður en hann var rifinn - Mynd: Emil Páll

Forstjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants, Stefán Guðmundsson, segir umfjöllun stærsta héraðfréttamiðils landsins, Víkurfrétta, um bátinn Storm SH 333, sem var í eigu fyrirtækisins, vera skringilega. Stefán segir í tölvupósti, sem sendur var bæði á ritstjóra Suðurnes.net og Víkurfétta að umræddur bátur hafi verið honum mjög kær, enda hafi hann byrjað sinn skipstjóraferil á honum.

Þá segir forstjórinn að Gentle Giants sé ekki í skuld við Reykjanesbæ og hafi greitt um 8 milljónir króna í hafnargjöld.

“Við höfum td. greitt tæpar 8 milljónir til Reykjaneshafnar í hafnargjöld á þessum árum sem hann hefur verið þar og til annarra það sem þeim ber.” Segir meðal annars í tölvupósti forstjórans

Athugasemdir Stefáns við fréttaflutning af málefnum fyrirtækisins má finna í heild sinni hér fyrir neðan. [Ath.semd ritstj.: Tölvupóstur forstjórans hefur verið styttur, þar sem hluti hans voru ummæli á persónulegri Facebook-síðu og beindust hvorki til ritstjórna Suðurnes.net eða Víkurfrétta. – Suðurnes.net stendur við sína frétt, enda telst það fréttnæmt þegar fjöldi fólks hyggur á aðgerðir gegn fyrirtæki.]

Sælir herramenn Eyjólfur Vilhjálmsson /  Suðurnes  –  Páll Ketilsson / Víkurfréttir.

Veit ekki alveg hvað ég á að eltast við þetta mál – en sendi ykkur hér með samantekt í leiðréttingarformi sem ég sendi á FB síðu kollega ykkar – sem ég veit engin deili á !

Þið eigið væntanlega auðvelt með að fá það staðfest hjá Reykjanesbæ að Gentle Giants sé skuldlaust við sveitarfélagið – og frétt þessa máls verði leiðrétt / dregin til baka.

Ég harma að þetta mál hafi vaxið í áttir sem ekki sér fyrir endann á að því er virðist !

Cc á lögmann fyrirtækisins !

1. Við áttum þennan bát í mörg ár og hugðumst gera hann upp og nota í okkar rekstur – stefna fyrirtækisins breyttist og við seldum.
2. Til okkar kom maður sem hafði áhuga fyrir því að kaupa.
3. Sá maður á 2-3 aðra báta sem hann er að dunda við að gera upp og það sama stóð til með þennan. Upphaflegu plön þess manns var að draga bátinn fljótlega af suðurnesjum vestur á firði.
4. Umræddur bátur var áður í Kópavogi í einhver misseri.
5. Við höfum staðið við allar okkar skuldbindingar gagnvart báðum þessum höfnum; sem og gagnvart þeim aðilum sem tóku td. þátt í annarri vinnu við bátinn til þess að halda honum á hverjum stað og lögðum mikið á okkur til þess.
6. Ástand þessa báts hefur lítið sem ekkert breyst eftir að hann komst í okkar eigu í annað skipti á ferlinum; fyrir rétt um 12 árum síðan.
7. Við höfum greitt allar okkar skyldur fyrir hann þar sem hann hefur fengið að liggja; öfugt við marga aðra í þeirri stöðu.
8. Við höfum td. greitt tæpar 8 milljónir til Reykjaneshafnar í hafnargjöld á þessum árum sem hann hefur verið þar og til annarra það sem þeim ber.
9. Við vorum og erum skuldlaus við Reykjanesbæ með öllu. Það staðfestir okkar bókhald sem og ný útskrift frá Reykjanesbæ.

Mér finnst afskaplega dapurt hvernig þetta mál hefur farið. Umræddur bátur var mér mjög kær. Ég byrjaði minn skipstjórnarferil á honum 21 árs gamall, hugsaði um hann eins og barnið mitt og hann reyndist afar farsæll.
Það segir vonandi sitt að hafa átt hann öll þessi ár og staðið við allar skuldbindingar með uppbyggingu í huga; þar til við breyttum okkar áherslum í rekstri fyrirækisins.

Frétt Víkurfrétta er mjög skringileg – þar eiga menn væntanlega ekki síma – sendu svo tölvupóst í morgun og buðu uppá comment; en þegar þau bárust frá okkur skömmu síðar – þá var svarið….Ahhhh þið voruð of sein…., félagið fékk ekki tækifæri til að koma að neinum athugasemdum í tíma. En tók jafnframt fram að málið væri í skoðun og ekki tímabært að tjá sig.

Ef við hefðum fengið að leiðrétta þá grundvallarvillu að skuld hafi hvílt á bátnum þá hefði væntanlega aldrei verið nein “frétt”.

Þessum gögnum verður nú komið til Víkurfrétta og ég vænti þess að “fréttin” verði dregin til baka.