Nýjast á Local Suðurnes

Forstjóri Bláa lónsins með 12 milljónir á mánuði í tekjur – Reksturinn gengur vel

Mynd: Bláa lónið

Forstjóri Bláa lónsins, Grímur Karl Sæmundsen, er í þriðja sæti yfir launahæstu forstjóra landsins, samkvæmt Tekjublaði Frjálsar verslunar sem gefið var út í morgun. Rekstur Bláa lónsins gekk vel á síðasta ári, en hagnaður fyrirtækisins eft­ir skatta nam um 2,6 millj­örðum ís­lenskra króna.

Tekjur forstjóra þessa fjölsóttasta ferðamannastaðar landsins nema 11,8 milljónum króna á mánuði. Valur Ragnarsson, forstjóri Medis, er tekjuhæsti forstjóri fyrirtækis á Íslandi með tæplega 25 milljónir króna á mánuði.

Eigendum Bláa lónsins var greiddur út 1,5 milljarða króna arður, vegna góðrar afkomu síðasta árs, en stór hluti þess fjárs rennur til félaga í eigu forstjórans Gríms Sæmundsen, sem eignaðist meirihluta í félaginu með athyglisverðum viðskiptagjörningum á níunda áratug síðustu aldar í samstarfi við viðskiptafélaga sinn, Eðvard Júlíusson, þáverandi bæjarfulltrúa í Grindavík og stjórnarmanns í Hitaveitu Suðurnesja.

Rétt er að taka fram að könnun Frjálsar verslunar byggir á útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur. Þá þurfa tölurnar ekki að endurspegla föst laun í fyrra þar sem allar tekjur ákvarða útsvar. Þær gætu verið fyrir setu í nefndum, önnur aukastörf og vegna kaupréttarsamninga. Jafnvel hafa margir tekið út séreignarsparnað.