Nýjast á Local Suðurnes

Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í leyfi frá störfum

Anna Lóa Ólafsdóttir forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur sótt um leyfi frá störfum, en hún mun taka við nýju starfi á Akureyri í haust og flytjast búferlum þangað.

Hún tilkynnti þessa ákvörðun á Facebook síðu sinni í morgun en þar segir meðal annars:

Tækifærið kom núna og eftir að ég skoðaði málið frá öllum hliðum, ákvað ég að breytinga væri þörf án þess að útskýra það frekar.

Ég hef sótt um árs leyfi frá störfum sem bæjarfulltrúi en í sveitarstjórnarlögum er slíkt leyfilegt við aðstæður sem þessar enda starf bæjarfulltrúa skilgreint sem aukastarf og því þarf að taka tillit til þess. Það kemur maður í manns stað og við hjá Beinni Leið vorum alltaf með þá sýn að sem flestir innan hópsins fengju að láta til sín taka. Nú opnast tækifæri fyrir fleiri til að koma að þeim mikilvægu málum sem bíða bæjarstjórnarinnar.

Kolbrún Jóna Pétursdóttir mun taka sæti Önnu Lóu í bæjarstjórn.