Nýjast á Local Suðurnes

Formleg kvörtun til Orkustofnunnar vegna mögulegrar ofrukkunar HS Orku og HS Veitna

Mynd: Skjáskot / Já.is

Neytendasamtökin hafa lagt inn formlega kvörtun til Orkustofnunnar vegna ákvörðunar HS Orku og HS Veitna um að innheimta greiðslur, fjögur ár aftur í tímann, vegna mistaka við gerð reikninga á því tímabili.

Samtökunum barst í upphafi mánaðar fjöldi ábendinga frá félagsmönnum um að fyrirtækin væru að innheimta aftur í tímann og er það mat samtakanna að í reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar segir skýrt að komi villa í reikningi, mælingu eða mælaálestri á dreifiveita rétt á að innheimta viðbótarupphæð sem leiðréttingunni nemur tvö ár aftur í tímann. Neytendasamtökin hvöttu í framhaldinu viðskiptavini sem málið snýr að að bíða með að greiða reikningana þar til á eindaga eða fá frest frá HS orku / HS veitum þar til niðurstaða fæst í málinu.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakana, sagði í samtali við Suðurnes.net að svör við fyrirspurn samtakanna hafi borist frá fyrirtækjunum varðandi málið, en að þau hafi að mati samtakanna ekki verið fullnægjandi.

Neytendasamtökin sendu því formlega kvörtun vegna þessa til Orkustofnunnar. Breki sagðist jafnframt vita til þess að fulltrúar HS Orku og HS Veitna hafi fundað með fulltrúum Orkustofnunnar vegna málsins og að hann vonaðist til að sá fundur skili ásættanlegri niðurstöðu sem fyrst.