Nýjast á Local Suðurnes

Flugvél Icelandair rann út af akstursbraut á Keflavíkurflugvelli

Flugvél frá Icelandair rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli í morgun, en skyggni er slæmt og aðstæður á flugvellinum eru mjög erfiðar. Samkvæmt heimildum Suðurnes.net var vélin að koma frá Seattle í Bandaríkjunum. Þá herma heimildir að farþegar séu komnir frá borði og voru nokkrir fluttir á HSS til skoðunar.

Rannsóknarnefnd flugslysa er komin á svæðið og rannsakar tildrög slyssins.

Uppfært kl. 9:15: Flugvélin mun hafa runnið út af akbraut á leið sinni að flugstöðinni.

Uppfært kl. 10:05: Vélin hefur verið dregin upp og unnið er að því að afferma hana og skoða skemmdir. Farþegi var fluttur á HSS, en það var vegna veikinda og tengdist óhappinu ekki, eftir því sem Suðurnes.net kemst næst.

Uppfært kl. 10:35: Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfesti í spjalli við Suðurnes.net að vélin hafi runnið  út af taxi-braut þannig að eitt hjól vélarinnar hafi hafnað utan brautar. Þá staðfesti Guðjón að farþegar hafi verið fluttir í flugstöðina og að engin slys hafi orðið á fólki við óhappið.