Nýjast á Local Suðurnes

Flugdólgur rukkaður um lendingargjöld og eldsneytiskostnað

Flugvél á vegum flugfélagsins Lufthansa þurfti að millilenda á Keflavíkurflugvelli vegna dólgsláta farþega í áætlunarferð frá Los Angeles í Bandaríkjunum til München í Þýskalandi í gær. Svo gæti farið að farþeginn verði rukkaður um lendingargjöld og eldsneytiskostnað vegna málsins.

Frá þessu er greint á vef RÚV, en þar er vitnað í umfjöllun TZ, þar sem rætt er við talskonu Lufthansa sem segist ekki muna eftir öðru eins máli.  Það sé afar sjaldgæft að það þurfi að millilenda vegna óláta farþega því í flestum tilvikum nái áhöfnin að róa þá niður. Í þessu tilviki þurfti hins vegar að tjóðra konuna við sæti hennar með límbandi.

TZ greinir frá því að kostnaður flugfélagsins við svona millilendingu sé mikill og ekki útilokað að konan verði rukkuð um lendingargjöld í Keflavík auk eldsneytiskostnaðar.