Nýjast á Local Suðurnes

Flugafgreiðslutæki streyma til Reykjanesbæjar – Styttist í að Play fari á flug

Hið nýja lággjaldaflugfélag, Play, hefur samið við Íslenska flugafgreiðslufélagið eða Reykjavík FBO um afgreiðslu flugvéla fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli. Flugfélagið mun hefja flugferðir til Evrópu í vetur á tveimur flugvélum, en bætt verður í flotann jafnt og þétt en stefnt er á að fljótlega verði bætt við flugi til Bandaríkjanna og að félagið verði komið með sex vélar í rekstur.

Flugafgreiðslufyrirtækið Reykjavík FBO er í startholunum og hefur undanfarið verið að flytja tækjabúnað sinn til Reykjanesbæjar, en búnaðurinn er geymdur á geymslusvæði í Njarðvík hvar hann bíður nýrra verkefna.

Fyrirtækið var stofnað árið 2017 og hefur starfað á Reykjavíkurflugvelli. Á síðasta ári námu tekjur félagsins um 10 milljónum króna. Play segir í fjárfestakynningu að um tveir milljarðar króna munu sparast með samningnum við Reykjavík FBO sé miðað við samning WOW-air við Airport Associates.