sudurnes.net
Flóttamönnum fjölgar hratt - Hóteli lokað og leigt ríkinu - Local Sudurnes
Ekki hefur verið gerður samningur á milli Reykjanesbæjar og ríkisins um þjónustu við fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem nú telur yfir 1.000 manns og er Reykjanesbæ gert að hlíta einhliða ákvörðun stofnunarinnar um að útvega þessum fjölmenna hópi húsnæði og þjónustu í sveitarfélaginu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bókun Sjálfstæðisflokksins í kjölfar umræðu um málefni flóttafólks á fundi bæjarstjórnar í gær. Þar kemur einnig fram að áhrifin á íbúa sveitarfélagsins séu þegar orðin víðtæk, sérstaklega á leigumarkaði. Þá kemur fram í bókuninni að að minnsta kosti einu hóteli á Suðurnesjum hafi verið lokað, starfsfólki sagt upp og húsakynnin leigð ríkinu. Bókun Sjálfstæðisflokks í heild: „Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hörmum þá stöðu sem upp er komin í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og leggjum því fram þessa bókun. Í upphafi skal þess getið að gera verður greinarmun á umsækjendum um alþjóðlega vernd annars vegar og flóttafólki, sem fellur undir samning Reykjanesbæjar við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks hins vegar. Reykjanesbær hefur gert samning um samræmda móttöku flóttafólks. Sá samningur tekur til um 350 manns sem við tökum á móti, styðjum við aðlögun að samfélaginu og er markmiðið að minnka umfang samningsins á samningstímanum. Reykjanesbær gerði fyrst samning [...]