Nýjast á Local Suðurnes

Fjármálavandi er hegðunarvandi

Fjármál okkar fara í hringi, rétt eins og öll önnur hegðun okkar. Venjurnar myndast af því að við verslum aftur og aftur það sem okkur líkar eða við þekkjum. Þegar við förum út í búð að versla í matinn eða veljum okkur föt veljum við yfirleitt það sama eða eitthvað sambærilegt vegna þess að okkur líkar varan og þjónustan. Þetta er hegðun sem er orðin rótgróin í undirmeðvitundina og gerir okkur kleift að framkvæma án þess að hugsa mikið. Við kaupum þess vegna aftur og aftur það sama í matinn því við höfum vanið okkur á að borða mat sem við þekkjum og kunnum að elda.

Haukur Hilmarsson - Fjármálaráðgjafi

Haukur Hilmarsson – Fjármálaráðgjafi

Á sama tíma og vani getur hjálpað okkur og gert daglegt líf einfaldara getur hann orðið til vandræða. Fjármál verða t.d. að vanda þegar þau verða að vana. Eins og með aðrar venjur mun heilinn hætta að hugsa því oftar sem við endurtökum hegðunina og sjálfvirkni undirmeðvitundarinnar tekur við. Við hættum að veita athygli því sem við erum alltaf að kaupa – aftur og aftur.

Hvað kostar 1 líter af mjólk? Hvað kostar samlokubrauð?

Fæstir muna nákvæm verð á þeim vörum sem eru af gömlum vana keyptar aftur og aftur. Við setjum mjólk og brauð í körfuna af því það er vani. Við venjumst því að mjólk og brauð kostar yfirleitt það sama og hættum að veita því athygli að verð fari nokkar krónur upp eða niður.

Oft er mesti sparnaðurinn í litlu daglegu hlutunum

Við sjáum sparnaðinn strax þegar við kaupum dýrar vörur á tilboðum en við spörum líka stórar upphæðir þegar við fylgjumst með verðum á þeim vörum sem við síendurtekið kaupum aftur og aftur. Það er 30% verðmunur á dýrustu og ódýrustu matvörubúðinni.

Skoðaðu Neytendavakt Skuldlaus.is og taktu þátt í að bæta útgjöldin. Þar er Matarkarfan sem uppfærð er mánaðarlega ásamt ábendingum um verð og þjónustu.