Nýjast á Local Suðurnes

Féll í gegnum ís á tjörninni í Innri Njarðvík – “Ég ætla ekki að fara að drep­ast hér“

Mynd: Skjáskot/Google

Rík­h­arður Óskars­son barðist fyrir lífi sínu eftir að hafa fallið í tjörnina í Innri-Njarðvík þegar hann reyndi að bjarga labra­dor-tík­i sinni, Dimmu, sem hafði fallið í tjörnina rétt fyrir klukkan sjö í morgun.

Ríkharður segist halda að hann hafi verið í vatninu í um 5-6 mínútur áður en hann náði að komast upp. Þá seg­ir hann að þessi reynsla hafi tekið meira á and­lega en lík­am­lega, þrátt fyr­ir að vatnið hafi verið ískalt.

„Ég held að ég hafi bar­ist þar í fimm eða sex mín­út­ur og reyndi að krafla mig upp á ís­inn og öskraði á hjálp en eng­inn heyrði í mér. Svo hugsaði ég með mér: „Ég ætla ekki að fara að drep­ast hér“ og sparkaði af al­efli og buslaði og buslaði og náði að krafla mig upp á ís­inn og lét mig svo rúlla upp að grynn­ingu þar sem ég vissi að var frosið. Þar fór ég upp á hnén og skreið það sem eft­ir var í land.“ Segir Ríkharður.

„Þegar ég var þarna ofan í horfði ég á kirkj­una og kross­inn og hugsaði með mér: „Guð, ef þú ert til, hjálpaðu mér núna.“ Stuttu eft­ir það gat ég kraflað mig upp.“  Segir hann.

Rík­arður titr­ar enn þá, um 10 klukku­tím­um eft­ir at­vikið, og hef­ur ekki náð að festa svefn. Aðra sögu er að segja af Dimmu. Hún er búin að sofa síðan klukk­an átta í morg­un, en hún er ekki lík sjálfri sér og vill bara sofa í sínu bæli.

Stutt er síðan ungur drengur féll í gegnum ís á tjörninni í Innri Njarðvík og þá fór einnig betur en á horfðist. Þá féllu tvö börn og maður sem kom þeim til bjargar í gegnum ís á sömu tjörn árið 2002, þá líkt og nú fór betur en á horfðist.  Alla frásögn Ríkharðs má lesa hér.