Nýjast á Local Suðurnes

Fasteignagjöld í Grindavík með þeim lægstu á landinu

Byggðastofnun hefur fengið Þjóðskrá Íslands til að reikna út fasteignamat og fasteignagjöld á sömu fasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu eins og undanfarin ár. Reiknað er út fasteignamat á hverjum stað ef þessi eign væri staðsett í viðkomandi sveitarfélagi. Viðmiðunareignin er einbýlishús, byggt 1975, sem er 161,1 m2 að grunnfleti og lóðarstærð er 808m2. Útreiknað fasteignamat þessarar eignar er í Grindavík 25,8 milljónir króna og hefur hækkað frá fyrra ári um 9,57%. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.

Útreikningur gjalda byggir á þessu fasteignamati samkvæmt álagningarreglum ársins 2015 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Til fasteignagjald teljast fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitu-, vatns- og sorpgjöld. Eins og fyrri ár kemur Grindavík vel út úr þessum samanburði með 224 þúsund króna fasteignagjöld og er það hækkun um 4,08% frá árinu 2014. Á árinu 2015 eru gjöldin hæst á Húsavík, 329 þúsund krónur en lægst á Vopnafirði, 164 þúsund krónur.

Ef einungis eru tekin sveitarfélög sem hafa svipað fasteignamat og í Grindavík, en það eru Egilsstaðir, Selfoss, Borgarnes, Hveragerði, Sauðárkrókur, Stykkishólmur, Keflavík, Akranes og Vestmannaeyjar, þá er Grindavík með lægstu gjöldin eða 224 þúsund eins og fyrr greinir. Hveragerði kemur næst með 264 þúsund krónur. Stykkishólmur er að innheimta mest eða 318 þúsund krónur.