Nýjast á Local Suðurnes

Fast skotið undir lok kosningabaráttu

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Facebookfærslur Gunnars Örlygssonar stuðningsmanns Sjálfstæðisflokksins og Jóhanns Friðriks Friðrikssonar, fyrrum oddvita Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ hafa vakið nokkra athygli, enda fast skotið með léttum húmor í bland undir lok kosningabaráttu.

Stórskemmtilegar færslur þeirra beggja má finna hér fyrir neðan.

Facebookfærsla Gunnars:

Eina leiðin til að kjósa Framsókn er að setja X við D. Eina leiðin til að ná fram kosningaloforðum Framsóknar er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Framsóknarfólk er indælt, vill vel en því miður er Framsókn getulaus án Sjálfstæðisflokksins.

Ég á marga góða vini í Framsókn, margir hverjir veiðifélagar. Skemmtilegir gárungar en ávallt reyna þeir að sleppa við uppvaskið í lok hvers túrs, smeygja sér frá og leggjast í sófann. Einnig eru þeir dálitið miklir tækifærissinnar, kasta flugunni jafnan fyrstir á hvílda veiðistaði. Ekki eru þeir miklir aflamenn en ágætir sögumenn. Stæra sig af miklum afla sem aldrei kom á land. Dálítið eins og samflokksmenn þeirra í pólitíkinni.

Ég þekki framsóknarmenn á letilegu göngulaginu og sakleysi í andlitsdrættum. Kringlulaga vinaleg andlit þar sem góðmennskan skín í gegn. Engu að síður fljótir að ketkötlunum þegar færið gefst og kunna þá list að sigla milli skers og báru. Hinir fullkomnu meðreiðarsveinar sem minna óneitanlega á leikstjóra nr 2 eða 3 í kappliði. Ekki við stjórnina en fá að halda á bikarnum stóra þegar honum er náð. Mæta ekki á allar æfingar en taka samt þátt. Eru með.

Þarna hafið þið það, til að ná einhverju af betri loforðum Framsóknar í gegn þá þarftu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, flokk sem lætur verkin tala.

Ef þú setur X við D þá færðu nefnilega smá krydd ad B með.

Facebookfærsla Jóhanns:

Nú þykir mér skjálftinn á skrifstofunni við hliðina vera að ná nýjum hæðum og svo virðist sem drunurnar séu farnar að berast upp á loft þar sem Gunnar Örlygsson vinur minn er til húsa með fyrirtækið sitt. Ég hitti kappann einmitt í gær og var hann í brúnu framsóknarlopapeysunni sinni glaður í bragði. Mér rann blóðið til skyldunnar við lesninguna á færslu hans í morgun og ákvað því að henda í smá pistil yfir morgunkaffinu enda tveir samflokksmenn hans sent mér færsluna í skilaboðum og furðað sig á skrifunum. Fannst þeim færslan helst til harkaleg í garð okkar samvinnuveiðimanna.

Fyrst ber að nefna að vel fer á með okkur í sambúðinni, okkur Gunnari og íhaldinu enda erfitt að finna betri nágranna en einmitt okkur í Framsókn. Aðdráttarafl samvinnunar hefur verið það öflugt að fyrir fjórum árum var kosningaskrifstofa íhaldsins í húsinu á móti sem nú er virðuleg málningarvöruverslun. Þótti mörgum það jákvæð vistaskipti. Ekki vildi þó betur til en í haust var kosningaskrifstofan komin við hliðina á Framsóknarsalnum og samkvæmt færslunni virðist skrifstofa Gunnars vera orðin að einskonar útibúi. Aðrir flokkar eru ekki undanskildir þeim töfrum sem nálægðin við Framsókn skapar. Í undanförnum kosningum hefur Miðflokkurinn verið á horni götunnar á móti, í húsnæði Íslandsbanka fyrrum, en eftir að það kvarnaðist úr klofningnum og til varð klofningur úr klofningnum hefur sú umbót hreiðrað um sig á sama stað. Allt er þar sómafólk og kirkjurækið að finna. Samfylkingin nældi sér svo í gott húsnæði þar sem eitt sinn var Landbankinn og þar við hliðina leynist svo Miðflokkurinn. Allt eru þetta góðar fréttir fyrir eina flokkinn sem sýnir þá fyrirhyggju að eiga sitt eigið húsnæði skuldlaust. Með öðrum orðum, allir vilja vera nálægt Framsókn, því nær því betra.

En aftur að Gunnari og veiðifélögum sem ekki nenna að vaska upp að hans sögn, þrátt fyrir að hafa vaskað upp eftir gleðskap íhaldsins um árabil hér í bæ. Gunnar sem vanur er að klæðast grænu, ef hann er á annað borð ekki í brúnu framsóknarlopapeysunni eins og gær, reiðir hér hátt til höggs að margra mati eftir að hafa lofað hvern frambjóðandann á fætur öðrum úr ranni íhaldsins á síðu sinni. Má þar þó helst kenna oddvita flokksins sem varla getur verið kát yfir skrifum stuðningsmannsins. Sú ágæta kona segist standa fyrir samvinnu, svo mjög, að flokkurinn skartaði slagorðinu “vinnum saman” í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Ágætlega hefur samvinna mín gengið við hana og marga úr hennar röðum enda leynast þar svipað margir framsóknarmenn og í meðalstórum réttum í uppsveitunum! Við Gunnar höfum þekkst lengi, það lengi að ég studdi hann til góðra verka á alþingi hér um árið fyrir Fjálslynda. Á þeim tíma fylgdi ég mínum manni víða, jafnvel á kosningakvöld með Bubba á Hótel Borg, þar sem við sungum saman Stál og hnífur, raddað.

Fáar sögur fóru af afrekum okkar manns á þingi en mælskur var hann og hnyttinn. Verst fannst mér að áður en haninn hafði galað þrisvar hafði hann klofið sig frá klofningnum rétt eins og nú er í tísku. Flúði hann í faðm Valhallar eftir vonlausa baráttu en þangað fara sumir sem fallið hafa í sínum pólitíska bardaga rétt eins og getið er um í fornbókmenntunum. Mér þykir þó miður sú staðreynd að eitthvað af mínum góðu félögum í Framsókn þekkja minna til Gunnars, jafnvel halda að honum sér sjálfrátt og þarna fari maður með óbeit á samvinnumönnum. Síst af öllu er Gunnari alvara um dugnað framsóknarfólks enda er það duglegra en góðu hófi gegnir. Glögglega má sjá það á óhóflegum samkomum og stanslausum heimsóknum í Framsóknarsalinn að undanförnu.

Sjálfur hef ég ekki farið varhluta af þeim samkomum sem kallað hafa á gengdarlausan vöfflubakstur af minni hálfu. Svo margar voru gestakomurnar er Guðni nokkur Ágústsson, besti landbúnaðarráðherra síðustu aldar kom í heimsókn, að vart hafði ég undan. Út runnu yfir 200 vöfflur og ilmurinn efir því. Líklegt er að Gunnari hafi þá langað í bita er hann sat á efri hæðinni í brúnu framsóknarlopapeysunni og velt fyrir sér hvers vegna honum var ekki boðið. Kannski hefur þessi skortur á formlegu boðskorti verið undirrót pistilsins. Því vil ég nýta tækifærið og bjóða Gunnari að stíga niður af stalli sínum og þiggja kaffi og með því á neðri hæðinni. Við í Framsókn erum nefnilega mannvinir upp til hópa og viljum að allir hafi jöfn tækifæri, líka þeir sem óvart missa sjálfstjórnina í aðdraganda kosninga 💚