Nýjast á Local Suðurnes

Fáir hafa kosið um deiliskipulagsbreytingar í Helguvík

Enn sem komið er hafa fáir nýtt sér rétt sinn til að kjósa um breytingar á deilskipulagi í Helguvík í rafrænum kosningum sem fram fara á vef Þjóðskrár, Island.is. í gær höfðu 353 kosið eða 3,29% af þeim 10.722 sem eru á kjörskrá, en upplýsingar um kjórsókn eru uppfærðar daglega á vef Þjóðskrár.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar skrifaði stuttan pistil um mikilvægi kosninganna á heimasíðu sveitarfélagsins en þar hvetur hann bæjarbúa til að nýta rétt sinn til að kjósa meðal annar vegna þess að “…Íbúar víða um land hafa verið að kalla eftir meira samráði og því að fá að hafa meiri áhrif með beinum hætti á ákvarðanir sem snerta þá. Þessi íbúakosning er gríðarlega mikilvægt skref í þeirri þróun, ekki bara fyrir íbúa Reykjanesbæjar heldur íbúalýðræði almennt.  Það má vel hugsa sér að í náinni framtíð verði kosið um fleiri mál s.s. nýtt aðalskipulag Reykjanesbæjar, stóra helíumblöðrumálið á Ljósanótt, sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum o.s.frv.”

Kosningin stendur til 4. desember

Íbúum Reykjanesbæjar gefst kostur á að kjósa til 02:00 þann 4. desember og eins oft og hver vill, ef skoðanir kunna að breytast eftir að kosið hefur verið. Svarvalmöguleikar verða tveir, hlynntur eða andvígur deiliskipulagsbreytingunni. Ef merkt er við hvorugt og haldið áfram innan kerfis jafngildir það að skila auðu. Gott er fyrir kjósanda að vera búinn að ganga úr skugga um að hann sé á kjörskrá og sækja um Íslykil eða rafrænt skilríki eigi kjósandi hvorugt.

Reykjanesbær opnaði fyrr í mánuðinum kosningavef á slóðinni www.ibuakosning.is þar sem nálgast má allar upplýsingar um kosninguna, forsendur, hvað er verið að kjósa um, sjónarmið bæjaryfirvalda og þeirra sem eru mótfallnir deiliskipulagsbreytingunni, upplýsingar um aðstoð við kosningu og hvernig fólk ber sig að við að nálgast auðkenni til að geta kosið. Einnig er tenging af íbúakosningavefnum yfir í kosningahluta kerfisins og rafræna kjörskrá, sem bæði er á íslensku og ensku. Allar grunnupplýsingar vefjarins eru á íslensku, ensku og pólsku.

Kosningaslóðin er virk frá kl. 02:00 24. nóvember til kl. 02:00 4. desember.