Nýjast á Local Suðurnes

Fær á þriðju milljón í eingreiðslu vegna afturvirkrar launahækkunar

Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar fær um 2,5 milljóna króna eingreiðslu, vegna afturvirkrar launahækkunar, samkvæmt útreikningum BSRB sem birtir eru á vef bandalagsins.

Laun framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar voru hækkuð um 12,8 prósent með ákvörðun Kjararáðs í síðustu viku. Launin voru tæplega 1,1 milljón á mánuði en verða rúmlega 1,2 milljónir. Hækkunin er afturvirk frá ársbyrjun 2016 og fær framkvæmdastjórinn um 2,5 milljóna króna eingreiðslu, samkvæmt útreikningum BSRB.

Að mati bandalagsins setur kjararáð með þessu skýrt fordæmi fyrir gerð kjarasamninga. „Það er ekki nýlunda í úrskurðum ráðsins en við gerð kjarasamninga hafa viðsemjendur BSRB ekki sýnt nokkurn vilja til að hækka laun aftur í tímann. Augljóst er að með þessu er kjararáð að setja skýrt fordæmi sem litið verður til þegar kemur að gerð kjarasamninga.“ Segir á vef bandalagsins.