Nýjast á Local Suðurnes

Fá endurgreiðslu á leigu vegna myglu í íbúð á Ásbrú

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Háskólagarða ehf. til þess að endurgreiða fyrrverandi leigjendum leigu sem þau höfðu greitt vegna myglu sem greindist í húsnæðinu eftir að leigjendurnir fluttu inn. Þá voru Háskólagarðar jafnframt dæmdir til að greiða fyrir þrif á innbúi fólksins sem hafði myglað í íbúðinni en alls nemur greiðslan tæpum 1,2 milljónum króna. Þetta kemur fram á Vísi.is.

Íbúðin sem um ræðir er við Fjörubraut 1225 í Reykjanesbæ. Endurgreiðsla á leigu var fyrir tímabilið 1. september 2011 til apríl 2012 og nemur upphæðin alls 625.175 krónum. Þá fær fólkið 558.000 krónur dæmdar vegna þrifa á innbúi.

Fólkið sem tók íbúðina á leigu flutti úr henni í mars 2012 en höfðu þá greitt fyrir leigu fyrir aprílmánuð. Í apríl og maí gerði fyrirtækið Hús og heilsa úttekt á ástandi íbúðarinnar að þeirra ósk auk þess sem Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja skoðaði íbúðina.