Nýjast á Local Suðurnes

Fá ekki að byggja litlar íbúðir – “Voru fundarmenn orðnir þreyttir og vildu komast heim?”

Mynd: Skrá.is

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafnaði beiðni 147 ehf. um heimild til að breyta skipulagi lóðanna Tjarnabraut 2-4 á þann hátt að þar verði byggð fjölbýlishús með minni íbúðir, 44-66 fm í bland, í stað þeirra bygginga sem samþykktar voru árið 2006. Beiðninni var hafnað af þeirri ástæðu að fjölbýlishúsin væru af of einsleitri íbúðagerð.

Fyrirtækið áætlaði að samtals yrðu byggðar 60-70 íbúðir á lóðunum í þriggja hæða húsum, auk þess sem óskað var eftir því að færa byggingarreit nokkrum metrum innar á lóðina þannig að mögulegt yrði að fjölga bílastæðum. Húsin eru samkvæmt núverandi deiliskipulagi af gerðinni D1 með 14-15 íbúðum og D2 með 10-11 íbúðum. Alls 24-26 íbúðir í 2-3 hæða fjölbýlishúsum við lífæð. Gert er ráð fyrir 1,8 bílastæðum á íbúð í skipulagi með möguleika á innbyggðum bílageymslum fyrir allt að helming íbúða.

Lögfræðingurinn Garðar K. Vilhjálmsson gerir málið að umfjöllunarefni í pistli á Fésbókar-síðu sinni, en hann telur rök Umhverfis- og skipulagsráðs vera veik og bendir á að engin íbúð af umræddri stærð sé á deiliskipulagi og engin íbúð að þessari stærð hafi verið byggð í hverfinu.

Garðar tekur fram að málið sé sér skilt og ýjar að því að fundarmenn hafi verið orðnir þreyttir, þar sem þetta var síðasta mál á fundinum eða hreinlega fundist þetta of flókið og ákveðið að segja bara “nei þetta verður allt of einsleitt”…. Frábær rök? Spyr Garðar í pistlinum, sem finna má hér fyrir neðan í heild sinni.