Nýjast á Local Suðurnes

Eyddu tugum kílóa af flugeldum – Sprengingin fannst vel í Njarðvík

Landhelgisgæslan eyddi í gærdag um 20 kílóum af flugeldum, um var að ræða flugelda sem lögregla hefur gert upptæka auk gamalla birgða frá Björgunarsveitinni Skyggni í Vogum. Íbúar í Innri-Njarðvíkurhverfi Reykjanesbæjar fundu vel fyrir sprengingunni, sem framkvæmd var á svæði sem bandaríski herinn hafði til afnota á sínum tíma til samskonar verkefna.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni ættu íbúar á þessu svæði ekki að finna fyrir sprengingu líkt og þeirri sem framkvæmd var í gærdag, að minnsta kosti ekki undir venjulegum kringumstæðum þar sem um frekar lítið magn var að ræða, en Landhelgisgæslan hefur heimild til að eyða allt að 100 kílóum af flugeldum í einu. Þó geta veðuraðstæður hafa haft áhrif, en raki í lofti og lágskýjað var þegar sprengingin var framkvæmd, sem getur hafa haft áhrif á leiðnina. Þá geta sprungur í jörðu á svæðinu einnig hafa háft áhrif.

Landhelgisgæslan hefur tvö svæði til afntota til þess að eyða sprengiefni á Suðurnesjum, í gryfju í efnisnámunum í Stapafelli og á áðurnefndu svæði sem er staðsett miðja vegu milli Stapafells og Keflavíkurflugvallar.