Nýjast á Local Suðurnes

Erlent starfsfólk Airport Associates mun borga skatta hér á landi

Flugþjónustufyrirtækið Airport Associates hefur gengið frá ráðningarsamningum við 75 starfsmenn frá Póllandi vegna vaxandi umsvifa á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið hefur keypt fjölbýlishús á Ásbrú undir starfsmennina og eru framkvæmdir við standsetningu í fullum gangi.

Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates, segir í samtali við fréttastofu RÚV að erlendir starfsmenn fyrirtækisins munu greið sín gjöld hér á landi.

„Þetta er allt fólk sem fær íslenska kennitölu, borgar hér útsvar og verður bara Íslendingar eins og ég og þú. Og að sjálfsögðu komum við til með að borga þessu fólki nákvæmlega sömu laun og við erum að borga öðrum sem starfa hjá okkur,“ segir Sigþór.

Þá segir Sigþór að búið sé að finna húsnæði fyrir erlenda vinnuaflið og verið sé að koma því í stand fyrir sumarið.

„Við erum búin að fjárfesta í blokkum á Ásbrú þar sem framkvæmdir eru á fullu. Það er verið að undirbúa þær blokkir, gera þær mjög fínar og eins og nýjar. Og þar komum við til með að hýsa fólkið.”