Nýjast á Local Suðurnes

Erlent fyrirtæki ræður yfir efnissölumarkaði á Suðurnesjum – Hagstæður samningur við ríkið

Mynd: ÍAV

Tvö stærstu verktakafyrirtæki landsins Ístak og ÍAV, sem bæði eru í eigu erlendra aðila, eru einu fyrirtækin sem hafa rétt til námuvinnslu í Stapafelli á Reykjanesi, en um er að ræða einu jarðefnasöluna sem haldið er úti á Suðurnesjasvæðinu, ef frá er talin lítil náma í landi Grindavíkur. Staða fyrirtækjanna er þó ólík að því leyti að ÍAV greiðir mun lægra gjald fyrir afnot af landi í eigu íslenska ríkisins en Ístak, sem leigir land af einkaaðilum.

Gera má ráð fyrir að gríðarlegur uppgangur í byggingariðnaði á Suðurnesjum tryggji ÍAV háar tekjur í efnissölu, en fyrirtækið er það eina á svæðinu sem selur smærri verktökum efni. Þá má gera ráð fyrir að bæði fyrirtækin hafi ákveðið forskot á önnur fyrirtæki þegar kemur að stórum jarðvinnuframkvæmdum á svæðinu, en aðgangur að námunum gerir það meðal annars að verkum að fyrirtækin tvö hafa verið í aðstöðu til að skipta með sér stórum verkefnum fyrir Isavia á Keflavíkurflugvelli og gatnaframkvæmdum fyrir Vegagerðina og Reykjanesbæ undanfarin ár.

Rétt er að taka fram að samkeppnisyfirvöld könnuðu námustarfsemi ÍAV, í Stapafelli og í Súlum, seint á níunda áratug síðustu aldar og komust að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi ekki brotið í bága við samkeppnislög. Þó er tekið fram í álitinu að samkeppni yrði virkari á markaðnum fyrir töku og sölu jarðefna ef ráðuneytið gengi framvegis til samninga um efnistöku á grundvelli útboðs. Námuréttur hefur þó aldrei verið boðinn út, hvorki af hálfu Utanríkisráðuneytisins sem fór með samningsmálin í upphafi, né af hálfu Fjármálaráðuneytisins sem samningurinn heyrir undir nú.

Hagstæður leigusamningur við ríkið

ÍAV, sem er í 100% eigu svissneska fyrirtækisins Marti Holding AG, hefur samning við íslenska ríkið um leigu á námu- og efnistökurétti í Stapafelli og Súlum og hefur samningurinn verið í gildi frá árinu 1994. Fyrirtækið greiðir fasta upphæð fyrir efnistökurétt á áðurnefndum stöðum, eða 1.750.000 krónur á ári*. Fyrirtækið greiðir, samkvæmt samningnum, ekkert rúmmetragjald fyrir efnistökuna. Eftir því sem Suðurnes.net kemst næst eru greiddar mun hærri upphæðir fyrir efnistökurétt í námum í eigu ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Samningur Ístaks, sem er í 100% eigu danska fyrirtækisins Per Aarslef, er aftur á móti við landeigendur og herma heimildir Suðurnes.net að fyrirtækið greiði fast árgjald auk gjalds fyrir hvern nýttan rúmmeter úr námunum, sem gerir það að verkum að fyrirtækinu er nær ómögulegt að veita ÍAV samkeppni í sölu á efni til annara verktaka.

Forsvarsmenn Ístaks vildu ekki tjá sig um námuvinnsluna í Stapafelli þegar eftir því var leitað, en heimildir Suðurnes.net herma að fyrirtækið nýti nær allt efni sem það vinnur í námunum í Stapafelli í eigin verkefni.

Efni mun dýrara á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu

Svissneska fyrirtækið ÍAV rekur einnig námur í Lambafelli, þar sem fyrirtækið þjónar verktökum á höfuðborgarsvæðinu og ber verðskrá fyrirtækisins þess merki að á þeim markaði sé samkeppni, en allt efni sem fyrirtækið selur er dýrara í námum fyrirtækisins á Suðurnesjum en í námu fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar verður fjallað um harða samkeppni fyrirtækjanna, sem hefur tekið á sig ýmsar myndir, og námureksturinn á Suðurnesjum á næstu dögum.

*Ekki fengust upplýsingar um hvort samningur ÍAV við ríkið taki breytingum skv. byggingavísitölu, en sé svo er leigugjaldið uppreiknað til dagsins í dag rúmar fjórar milljónir króna á ári.