Enn vaxtaverkir í FLE – Stuttur biðtími þrátt fyrir gríðarlega farþegafjölgun
Upplýsingakerfi flugstöðvarinnar í Keflavík datt út í 15 mínútur um kl. 13 í dag, með þeim afleiðingum að engar upplýsingar var að finna á upplýsingaskjám í brottfarar- og komusölum, þar á meðal við farangursbönd flugstöðvarinnar.
Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, kom upp bilun við uppfærslu kerfisins en málum var kippt í liðinn á fáeinum mínútum. Borið hefur á því undanfarin misseri að farþegar hafa þurft að bíða nokkuð eftir farangri sínum, sérstaklega á álagstímum, en nýtt farangurskerfi var tekið í notkun í sumar.
Guðni segir í samtali við mbl.is að aukinn farþegafjöldi kalli á aðlögun, en bendir á að biðtími á Keflavíkurflugvelli sé mjög stuttur.
„Við fórum í gegnum þetta í öryggisleitinni í fyrra,“ segir hann en á þeim tíma voru farnar að myndast raðir í leitinni sem menn gátu ekki sætt sig við.
„Við bættum mjög í mannskapinn og fórum yfir alla ferla, bættum búnað og núna eru 95% [farþega] að bíða innan við fimm mínútur, þrátt fyrir gríðarlega farþegafjölgun,“ segir Guðni. „Við gerum okkar besta í að fara í gegnum þetta og reynum að gera það eins hratt og mögulegt er. Það eru allir að vinna að því að veita farþegum sem besta þjónustu.“