Nýjast á Local Suðurnes

Enn á gjörgæslu eftir árekstur á Sandgerðisvegi

Kona sem slasaðist alvarlega í árekstri sem varð í kjölfar eftirfarar lögreglu á Sandgerðisvegi þann 18. janúar síðastliðinn liggur enn mikið slösuð á gjörgæslu.

Í tilkynningu frá lögreglu sem send var út eftir áreksturinn segir að lögreglumenn hafi veitt stolinni bifreið eftirför og að henni hafi verið ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Karlmaður á þrítugsaldri sem ók bifreiðinni hafði verið sviptur ökuréttindum, auk þess að vera undir áhrifum fíkniefna.

Maðurinn, sem handtekinn var á vettvangi, er enn í haldi lögreglu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er rannsókn málsins á lokastigi, segir á vef RÚV.

Í áðurnefndri tilkynningu frá lögreglu sagði jafnframt að lögreglumenn sem veittu eftirförina hafi dregið verulega úr hraða lögreglubifreiðarinnar áður en slysið varð.