Nýjast á Local Suðurnes

Engum deildum lokað á HSS og starfsfólk heldur vinnunni

Engum deildum verður lokað á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og starfsfólki verður ekki sagt upp. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjórn stofnunarinnar.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að ljóst sé að stofnunin verði rekin með halla á árinu og að stjórnin ásamt starfsfólki leiti leiða til að mæta hallarekstrinum.

Tilkynning framkvæmdastjórnar í heild sinni:

Að gefnu tilefni vill framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja taka fram að engar áætlanir eru uppi um að leggja niður deildir á stofnuninni eða segja upp starfsfólki.

Það er þó ekkert launungarmál að HSS stefnir í hallarekstur á árinu, sem rekja má til þess að fjárveitingar til stofnunarinnar hafa ekki tekið mið af þjónustuþörf á Suðurnesjum og verulegri íbúafjölgun á svæðinu undanfarin ár.

Framkvæmdastjórn og starfsfólk HSS leita nú leiða til að mæta hallarekstrinum en sem fyrr segir eru engar uppsagnir fyrirhugaðar í því sambandi.