sudurnes.net
Engin annarleg sjónarmið réðu ferð þegar samið var við United Silicon - Local Sudurnes
Höfundur úttektar á stjórnsýsluháttum Reykjanesbæjar vegna kísilverksmiðju United Silicon hf. kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert í samskiptum United Silicon hf eða forverum félagsins, við Reykjanesbæ gefi tilefni til að ætla að annarleg sjónarmið hafi ráðið ferðinni hjá stjórnendum eða starfsmönnum bæjarins í samskiptum og samningagerð við fyrirtækið. Í úttektinni kemur hins vegar fram að samningur um málsmeðferð útgáfu byggingarleyfa hafi ekki verið í samræmi við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti, en Reykjanesbær samdi við fyrirtækið um að einungis sex dagar liðu frá því að umsóknir bærust sveitarfélaginu þar til að afstaða yrði tekin til þeirra. Þá kemur fram að annmarkar hafi verið á skipulagsferli og við útgáfu byggingarleyfa, sérstaklega varðandi hámarkshæð húsa á lóð kísilversins. Hámarkshæð hafi verið sett í deiliskipulag og heimilað byggingu hærri mannvirkja en umhverfismat hafi gert ráð fyrir. Byggingarleyfi hafi verið gefin út í andstöðu við deiliskipulag þar sem hæð samkvæmt samþykktum teikningum hafi verið rúmlega metra yfir leyfilegri hæð og ekki verið í samræmi við mat á umhverfisáhrifum. Skýrslan er unnin að frumkvæði Reykjanesbæjar og er byggð á fundargerðum bæjarráðs, bæjarstjórnar og þeirra nefnda sem að málinu komu. Þá var skýrsluhöfundi afhentir samningar og tölvupóstsamskipti. Skýrsluhöfundur skoðaði auk þess gögn sem aðgengileg eru almenningi, skýrslu Ríkisendurskoðunar og fréttir [...]