Nýjast á Local Suðurnes

Endurvekja Stapaböll – Skemmtistaðaeigendur ósáttir

Rekstraraðilar skemmtistaða á Suðurnesjum eru ósáttir við þá ákvörðun að Hljómahallar að skipuleggja skemmtun, sem þeir segja vera beina samkeppni við skemmtistaði í Reykjanesbæ. Hljómsveitirnar Úlfur Úlfur , Emmsjé Gauti og Sturla Atlas ásamt Agent Fresco og 101 Boys, munu troða upp í Stapa í Hljómahöll þann 21. maí næstkomandi.

Á vef DV.is segist Björn Vífill Þorleifsson, eigandi Ráarinnar, hafa haft samband við bæjaryfirvöld vegna málsins, en Reykjanesbær er eigandi Hljómahallar.

„Ég hef talað fyrir tómum eyrum hjá bænum út af þessu. Þetta er auðvitað bein samkeppni við okkur,“ segir Björn og segir málið vera til háborinnar skammar. Þá segir Björn viðskipti við staðinn hafa minnkað eftir að Hljómahöllin hafi opnað og að rekstraraðilar á svæðinu hafi fundið fyrir því.

Fram kemur í umfjöllun DV að Hljómahöll sé sjálfstæð rekstrareining innan sveitarfélagsins, með sjálfstæða stjórn og framkvæmdarstjóra og að sveitarfélagið komi ekki að daglegum rekstri eða ákvörðunum varðandi skemmtanir.

Framkvæmdastjóri Hljómahallarinnar, Tómas Young, segist ekki líta á viðburðinn sem samkeppni við aðra rekstraraðila í bænum og að Hljómahöll taki á sig tap sem hljótist af skemmtunum á þeirra vegum.

Hann segir Hljómahöll halda marga tónleika, bæði fyrir unga sem aldna. Aðspurður hver það yrði sem myndi taka á sig tapið ef til þess kæmi sagði hann Hljómahöll taka tapið á sig, en Hljómahöll er sem fyrr segir sjálfstæð rekstrareining hjá bænum. „Það eru allar líkur á að þetta gangi upp.” segir Tómas.