Nýjast á Local Suðurnes

Elfar Þór framleiðir kvikmynd byggða á sögu Stephen King

Njarðvíkingurinn Elfar Þór Guðbjartsson hefur fengið leyfi til að framleiða stutta kvikmynd, sem byggð er á smásögu Stephen King, Popsy. Gerð myndarinnar er hluti af námi Elfars við Kvikmyndaskóla Íslands, en leyfið til framleiðslunnar fékk Elfar í gegnum verkefni á vegum Stephen King, Stephen King´s Dollar Babies, sem miðar að því að aðstoða nema í kvikmyndafræðum við framleiðslu kvikmynda.

Elfar Þór sagðist í samtali við Suðurnes.net vera mikill aðdáandi Stephen King og því megi segja að draumur sé að verða að veruleika.

“Ég hef verið King maður bara frá því ég man eftir mér. Horfði á It þegar ég var svona 9 ára og það hefur alltaf verið draumur hjá mér að aðlaga sögu eftir hann í myndform og fannst tilvalið að reyna við þetta núna því ég er í áfanga í skólanum sem við eigum að aðlaga áður útgefið efni.” Sagði Elfar.

“Fyrst hélt ég að þetta væri langsótt hjá mér að reyna við Kónginn sjálfan en þegar ég fór að skoða hvaða sögur eru í boði þá tók ég eftir að Popsy sem hefur alltaf verið ein uppá halds smásagan mín eftir hann væri í boði fyrir mig var ekki annað hægt en að reyna við þetta og innan við sólahring seinna er ég hálfnaður með fyrsta draftið af Íslenskri útgáfu af sögunni.” Sagði Elfar.

En það eru ýmis skilyrði sem þarf að fara eftir þegar kvikmyndir eru framleiddar í gegnum þetta verkefni, en Elfar segir það ekki skipta öllu máli þegar hann fær að upplifa druminn, að framleiða mynd eftir Stephen King.

 “Skilyrðin eru að ég má ekki nefna myndina Stephen King’s Popsy, má ekki græða á myndinni og hún má ekki vera meira en 45 mínútur að lengd, en hverjum er samt ekki sama um peninga þegar maður fær að reyna við draum sinn,” sagði Elfar léttur í bragði.