Ekki alvarleg áhrif á heilsu – United Silicon fær ekki leyfi fyrir öðrum ofni
Fyrirliggjandi upplýsingar um heilsufarsáhrif mengunar frá kísilverksmiðu United Silicon í Helguvík sýnir að hún virðist valda vægri ertingu í augum og öndunarvegi hjá heilbrigðum einstaklingum sem eru mismikil milli einstaklinga. Einstaklingar með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma virðast þó oft á tíðum finna fyrir meiri einkennum og þá sérstaklega astmaeinkennum sem í mörgum tilfellum krefjast sérstakrar lyfjagjafar. Engin dæmi eru hins vegar um alvarleg heilsuspillandi áhrif.
Þetta segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun, en fyrstu niðurstöður mælinga á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum (VOC efna) vegna kísilverksmiðju United Silicon hf. bárust umhverfisstofnun fyrr í vikunni. Það var norska loftrannsóknastofnunin NILU sem sá um skipulag mælinga og greiningu sýna. Ekki fundust skaðleg efni í sýnum í þeim styrk sem gæti haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða, að mati norsku stofnunarinnar.
Enn stendur ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. mars varðandi takmörkun á starfsemi verksmiðju United Silicon þar sem kveðið er á um að framleiðsla verksmiðjunnar einskorðist við einn ljósbogaofn.