Nýjast á Local Suðurnes

Einn gerði athugasemdir við deiliskipulagstillögur vegna Hafnargötu 12

Einn húseigandi gerði athugasemdir við deiliskipulagstillögur sem Hrífutangi ehf. óskaði eftir að tekin yrði til umfjöllunar hjá Umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar vegna byggingar fjölbýlishúss að Hafnargötu 12.

Um er að ræða 30-35 íbúðir í 2. hæða húsum með nýtanlegu risi. Tillagan er í samræmi við áður samþykkta deiliskipulagsskilmála fyrir lóðina og var auglýst skv. 41. gr skipulagslaga með athugasemdafresti til 1. júní sl.

Athugasemdir bárust frá húseigendum einnar eignar og eru þær hér meðfylgjandi.

Svör við athugasemdum :

Varðandi ásýnd bæjarins:
Byggingar koma til með að hafa áhrif á ásýnd bæjarins séð frá Hafnargötu og Ægisgötu. Á því er tekið í skilmálum deiliskipulags þar sem því er lýst í sérskilmálum „þar sem lóðin er á svæði hverfisverndar skulu byggingar taka tillit til mismunandi einkenna, mælikvarða og yfirbragðs sögulegrar byggðar og götumynda í nánasta umhverfi og við aðliggjandi götur“.

Varðandi teikningar:
Skýringauppdráttur og kennisnið fylgjandi deiliskipulagi eru aðeins leiðbeinandi, lokahönnun getur aðeins farið fram samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Varðandi notkun:
Fjölskyldugerðir hafa tekið miklum breytingum frá því sem áður var og eru sífellt auknar kröfur um framboð smærri íbúða í þéttbýli. Fyrirhuguð uppbygging á Hafnargötu 12 er liður í að uppfylla fjölskyldustefnu bæjarins með að nægt framboð sé á almennum búsetuúrræðum fyrir allar fjölskyldugerðir. Þar sem um litlar íbúðir er að ræða er einungis gert ráð fyrir 1 bílastæði á íbúð .

Varðandi útsýni:
Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins og tillögu að uppbyggingu á lóðinni Hafnargötu 12 verður fjarlægð milli hús að lágmarki 6.0 metrar til að halda sjónlínum frá Túngötunni. Byggingin sem nú skyggir á sjónlínuna ( þvottahús SBK) verður fjarlægð.

Skipulagsbreytingin er í samræmi við sérstaka deiliskipulagsskilmála samþykkta af bæjarstjórn 21. mars síðastliðinn og samþykkir Umhverfis- og skipulagsráð að senda deiliskipulagsbreytinguna til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.