Nýjast á Local Suðurnes

Efna til nafnasamkeppni fyrir viðburðatorg – Innblástur í sjósókn og sjávarútveg skilyrði

Ákveðið hefur verið að efna til nafnasamkeppni fyrir viðburðatorgið við Seljabót, neðan við Kvikuna í Grindavík. Svæðið er viðburðasvæði Grindvíkinga og hefur verið það síðan árið 2003 þegar teknir voru í notkun pallar í brekkunni. Meðal viðburða sem fram hafa farið á svæðinu eru Sjóarinn síkáti, hátíðarahöld í tengslum við 17. júní, þrettándagleði auk fjölda annarra viðburða.

Í dagskrá viðburða er reglulega vísað til „hátíðarsvæðisins fyrir neðan Kvikuna“ eða „hátíðarsvæðisins við Seljabót fyrir neðan Kvikuna“. Hvort tveggja þykir langt og óþjált, segir á vef sveitarfélagsins. Því er leitað til bæjarbúa eftir hentugu heiti á þetta verðmæta svæði sem er sameign Grindvíkinga. Heitið sem valið verður skal sækja innblástur í sjósókn og sjávarútveg.

Verðlaun verða veitt fyrir það nafn sem valið verður. Hægt er að koma tillögum til skila gegnum Facebook síðu Grindavíkurbæjar eða netfangið eggert@grindavik.is. Skilafrestur er til og með 31. mars nk.