Nýjast á Local Suðurnes

Deiliskipulagstillaga vegna Hafnargötu 12 send til endanlegrar afgreiðslu

Tillagan að deiliskipulagi vegna bygginga við Hafnargötu 12 hefur verið send Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu. Tillagan var auglýst frá og með 25. október til 6. desember 2018 og kynnt á íbúafundi þann 27. nóvember síðastliðinn.

Engar athugasemdir komu fram á fundinum, en skilmálum tillögunnar var breytt frá auglýstri tillögu á þann veg að nánari kvaðir eru settar á um yfirbragð bygginga og skilyrði að skipulagshöfundur sé umsagnaraðili um endanlega hönnun.

Á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, sem haldinn var þann 17. desember síðastliðinn kom fram að ein athugasemd í nokkrum liðum hafi borist á kynningartíma. Athugasemdir ásamt svörum má sjá hér fyrir neðan:

1. Atriðum er varða viðskiptahugmynd, markhópa, eignaskiptingu og innra-fyrirkomulag auk annarra atriða sem ekki varða skipulagsmál er ekki svarað að öðru leyti en því að deiliskipulagstillagan rekst ekki á ákvæði byggingareglugerðar.
– Fullyrt er að deiliskipulagsuppdrættir hafi einungis verið sjáanlegir á vef bæjarins.
2. Það er ekki rétt. Uppdrættir voru hangandi upp í anddyri bæjarskrifstofunnar eins og venja hefur verið í mörg ár þegar deiliskipulag er í kynningu, starfsmenn hefðu getað bent viðkomandi á það.
3. Mótmælt er rifum á byggingum á lóðinni.
– Þessi rif voru heimiluð með breytingu á deiliskipulagi samþykktu í júlí 2017.
4. Athugasemd er gerð við að bílastæðahlutfall sé ekki í heilum tölum en vísað er í ranga tölu í athugasemd.
– Bílastæðahlutfallið 1,4 þýðir að það eru fleiri bílastæði á lóð en sem nemur íbúðafjöldanum. Gert er ráð fyrir að hámarki 58 íbúðum þ.a.l að bílastæðafjöldi á lóð er þá 81 stæði, verði íbúðir færri er fjöldi bílastæða í sama hlutfalli við þann fjölda íbúða.

Samþykkt var á fundinum að senda til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.