Nýjast á Local Suðurnes

Deiliskipulagsbreytingar við Leirdal samþykktar – Sjáðu athugasemdirnar

Svæðið við Leirdal helst óbreytt á meðan málið er í ferli

Reykjanesbær auglýsti á dögunum breytingar á deiliskipulagi Leirdals í Inrri-Njarðvíkurhverfi. Nýja deiliskipulagið var auglýst frá 22.september til 3.nóvember 2016. Breytingin fellst í því að 2. hæða einbýlishúsum við Leirdal 7-37 (oddatölur) er breytt í tvíbýli. Töluverð andstaða hefur verið við deiliskipulags- breytingarnar á meðal íbúa við götuna, en skipulagið var meðal annars kært til kærunefndar Umhverfis- og auðlindamála á sínum tíma.

Þá komst byggingasvæðið í fréttir eftir að sex ungir drengir fundu og stungu sig á blóðugum sprautunálum á byggingasvæði við götuna í byrjun september.

Athugasemdir bárust frá 8 húseigendum og eru hér meðfylgjandi.

Í fundargerð Umhverfis- og skipulags ráðs kemur fram að athugasemdir séu nánast samhljóma frá öllum aðilum og svör því sameiginleg til allra.

Hér á eftir fara athugasemdir og svör við þeim.

1) Þegar íbúar nærliggjandi gatna ákváðu að byggja húsnæði eða kaupa á svæðinu var stór forsenda þess að hverfið  var skipulagt sem einbýlishúsahverfi.“

Svar: Stór hluti Dalshverfis er skipulagt sem fjölbýli þar á meðal hluti Leirdals.

2) „Umhverfis-og Skipulagsráð Reykjanesbæjar telur ekki þörf á að fara með jafn stórtækar breytingar í grenndarkynningu sem íbúar geta ekki með neinu móti fallist á að sé rétt ákvörðun.“

Svar: Ákveðið var að fara fram á tillögu að deiliskipulagsbreytingu vegna umfangs málsins en grenndarkynning er fyrir minni háttar breytingar. Deiliskipulags breyting felur í sér kynningu og íbúar hafa tækifæri til að koma að athugasemdum við deiliskipulagsbreytinguna.

3) „Líta má svo á að  um fordæmisgefandi ákvörðun sé að ræða og á þeim forsendum verði lóðirnar að Leirdal 7-37 einnig reistar tvíbýlishúsum.“

Svar: Þessi deiliskipulagsbreyting felur í sér að svo verði. Enda fjallar deiliskipulagsbreytingin um allar lóðirnar.

4) „Af sömu fordæmisgefandi mynd mætti því einnig hugsa sér að aðrar óbyggðar lóðir sem samkvæmt deiliskipulagi eiga að vera einbýlishús verði gerðar að tvíbýlum eða jafnvel fjórbýlum með það að leiðarljósi að byggingarverktakar hagnist sem mest á þeim.“

Svar: Óskir um slíkar breytingar verða vegnar og metnar hverju sinni og í nokkrum tilvikum hefur slíku verið hafnað.

5) „Miðað við meðalfjölda bifreiða á hvert heimili á Íslandi má gera ráð fyrir því að um 1,25 bifreið muni fylgja hverri íbúð í það minnsta eða 2,5 bifreiðar á hvert hús og er því nokkuð ljóst  að leggja verður bifreiðum við götu í stað bílastæðis þar sem bílastæði munu ekki bera bílafjölda hvers húss.“

Svar: Deiliskipulagstillagan gerir ráð fyrir 4 bílastæðum við hvert hús eða 2.bílastæði fyrir hverja íbúð eins og gert er ráð fyrir annars staðar í götunni.

6) „Umferð kemur til með að aukast um helming sem leiðir til aukinnar slysahættu.“      

Svar: Í deiliskipulagstillögu er gert ráð fyrir fjölgun íbúða úr 40 í 56. Leirdalurinn er 450 metra langur og með fjórum inn- og útakstursleiðum og verður ekki séð að þessi fjölgun íbúða valdi umferðarvandamálum.

 7) ,,Skólinn í hverfinu er sprunginn, en hann var byggður fyrir 300 nemendur, en 550  nemendur sækja nám þar.“

Svar : Undirbúningur er hafinn að byggingu nýs grunnskóla og hefjast framkvæmdir á næsta ári.

8) ,,Minna húsnæði er oftar í útleigu sem oft á tíðum laðar að sér ýmis vandamál.“

 Svar: Umhverfis- og Skipulagsráð gerir ekki upp á milli sinna íbúa, hvort sem þeir eru eigendur eða leigjendur.

 9) ,,Með auknum íbúafjölda eykst ónæði“.

Svar: Reykjanesbær fer stækkandi og við það eykst umferð og aðrir þættir sem fylgja fólksfjölgun en slíkt  er eðlileg þróun.

 10) ,,Í gildandi skipulagi er nóg af skipulögðum fjölbýlishúsalóðum til úthlutunar.“

Svar: Fjöldi lóða fyrir allar gerðir húsnæðis eru í boði en þessi skipulagsbreyting byggist ekki á því.

 11) ,,Samkvæmt samtali við fasteignasala þá er vöntun á einbýlishúsum til sölu í Reykjanesbæ.“

Svar: Samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölum er vöntun á öllu húsnæði í dag.

Umhverfis- og skipulagsráð telur ofangreind andmæli ekki gefa nægan grunn til að synja þessari deiliskipulagbreytingu en bendir á að íbúar geta kært endanlega samþykkt hennar til kærunefndar Umhverfis- og auðlindamála innan 30 daga frá gildistöku hennar.

 Samþykkt að senda deiliskipulagstillöguna til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.