Nýjast á Local Suðurnes

Deila um leigu á Reykjadalsá – Stangveiðifélag Keflavíkur stefnir Fiskistofu og formanni veiðifélags

Mynd: SVFK

Sýslumaðurinn á Vesturlandi hafnaði á dögunum lögbannskröfu sem Stangveiðifélag Keflavíkur (SVFK) vildi að gerð yrði á sölu veiðileyfa í Reykjadalsá í Borgarfirði. SVFK telur að samningur sem undirritaður var í apríl 2018, til fimm ára, sé gildur, en Veiðifélag Reykjadalsár telur að svo sé ekki og hyggst sjálft selja veiðileyfi í ána í sumar.

Stangveiðifélag Keflavíkur er samkvæmt heimildum Skessuhorns, sem fjallar ítarlega um málið, búið að selja flestalla veiðidaga í ánni í sumar, en stjórn þess hefur átt í deilum við stjórn veiðifélags árinnar um lögmæti fimm ára samnings um veiðirétt fyrir árin 2018-2022.

Ástæðu deilunnar má rekja til þess að tveir fyrrum stjórnarmenn í veiðifélaginu gerðu drög að samningi um leigu árinnar til fimm ára vorið 2018 og lögðu fyrir fund í veiðifélaginu. Samningsdrögunum var hafnað og öðlaðist hann því aldrei lögformlegt gildi. Málið kom til kasta Fiskistofu sem úrskurðaði í málinu 15. janúar 2019. Felldi stofnunin úr gildi ákvörðun um ráðstöfun á veiði í Reykjadalsá og taldi samninginn ólögmætan vegna formgalla við gerð hans og að ekki hafi verið rétt staðið að boðun félagsfundar í veiðifélaginu.

Í tilkynningu sem birt er á vef SVFK kemur fram að stjórn Stangveiðifélags Keflavíkur eigi erfitt með að trúa því að handvömm tengd stjórnar eða aðalfundarmálum Veiðifélags Reykjadalsár, geti orðið til þess að undirskrifaður og gildur samningur, að mati stjórnar SVFK, sem starfað hefur verið eftir í eitt ár og búið að þiggja greiðslur fyrir, verði dæmdur ógildur. Tilkynninguna í heild má sjá hér.