Nýjast á Local Suðurnes

Breyttir flugtímar á Keflavíkurflugvelli – Hvetja farþega til að mæta snemma

Breytingar hafa verið gerðar á dreifingu ferða flugfélaga á Keflavíkurflugvelli og eru farþegar sem eiga bókað flug á milli klukkan 07:00 og 09:00 hvattir til að mæta að minnsta kosti tveimur og hálfum tíma fyrir brottför til að komast hjá aukinni bið í innritun og öryggisleit. Innritun og öryggisleit opnar kl. 04:00 alla morgna á Keflavíkurflugvelli.

Ferðir sem áður voru áætlaðar seinna um morguninn hafa þannig verið færðar í þennan fyrsta brottfararhluta dagsins og verður svo fram til loka októbermánaðar. Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, bendir á í tilkynningu að innritun og öryggisleit opni klukkan 04:00 alla morgna á Keflavíkurflugvelli.

Þá eru farþegar einnig hvattir til að kynna sér þær reglur sem gilda í öryggisleit og hvernig best sé að haga ferð sinni þar í gegn til þess að flýta fyrir.

  • vökva er einungis heimilt að hafa meðferðis ef hver eining er 100 ml. eða minna og má heildarmagn ekki fara yfir 1 lítra.
  • setja skal allan vökva sem er 100 ml. eða minna í glæran rennilásapoka og setja í bakka við öryggisleit.
  • taka skal fartölvu og önnur stærri rafmagnstæki úr tösku og setja í bakka.

Nánari leiðbeiningar má finna hér: https://www.isavia.is/keflavikurflugvollur/fyrir-flug/farangur-og-oryggi/oryggisleit-og-reglur