Nýjast á Local Suðurnes

Börnum neitað um innritun í flug til Íslands – Enga hjálp að fá hjá WOW air

Þremur íslenskum börnum á aldrinum 8-16 ára var meinað að innrita sig í flug hjá WOW air á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn í gær, þar sem ekki hafði verið keypt fylgd fyrir yngsta barnið. Börnin sem alin eru upp á Suðurnesjum en búa í Danmörku, voru því strandarglópar á Kastrup flugvelli í nokkrar klukkustundir þar til fjölskylduvinur kom að sækja þau.

Frá þessu er greint á Stundin.is og haft eftir stjúpmóður barnanna að ekki hafi náðst samband við WOW air né samstarfsaðila þeirra hér á landi.

“Það er ekkert neyðarnúmer sem WOW air býður upp á og við náðum ekki í neinn,“ segir Hrund Óskarsdóttir, stjúpmóðir barnanna, í samtali við Stundina. „Við erum í algjöru sjokki yfir þessu.“

Hrund segir börnunum hafa liðið mjög illa í gær. „Þau voru bæði hrædd og leið og þau voru náttúrlega bara ein. Við gátum svo lítið gert. Vinur okkar sem kom og sótti þau býr í rúmri klukkustundar fjarlægð þannig það tók tíma fyrir hann að koma. Eins og þú sérð, þá hafði enginn sérstakar áhyggjur af því að ókunnugur maður labbaði inn á Kastrup flugvöll og tók börnin með sér.“

Stundin hefur eftir upplýsingafulltrúa WOW air að flugfélagið þurfa að fara eftir Evrópureglugerðum sem segja að börn megi ekki ferðast án fylgdarmanns. Foreldrarnir segja hinsvegar að börnin hafi margoft flogið áður með flugfélaginu, í fylgd eldri systkyna sem ekki hafi náð 18 ára aldri.

Þá er tekið fram í fréttinni að faðir barnanna hafi boðist til þess að kaupa fylgd fyrir þau, en því verið hafnað þar sem það þarf að gerast 48 tímum fyrir brottför.

Nánar má lesa um málið á Stundinni.