Nýjast á Local Suðurnes

Boðað til kröfuhafafundar vegna United Silicon

Lex lögmannsstofa hefur boðað kröfuhafa United Silicon til fundar vegna greiðslustöðvunar sem Héraðsdómur Reykjaness veitti rekstraraðila verksmiðjunnar, Sameinuðu Sílikoni hf.  þann 14. ágúst síðastliðinn. Fundurinn fer fram þann 31. ágúst næstkomandi, en eftir hann má búast við að línur taki að skýrast varðandi áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar í Helguvík.

Í fréttatilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í kjölfar greiðslustöðvunarinnar sagði að framtíðarhorfur þess væru vænlegar að því tilskyldu að unnt yrði að afla aukins fjármagns, semja við lánardrottna og endurskipuleggja reksturinn. Þá eykur nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV á óvissu um rekstur verksmiðjunnar, en samningar um uppgjör þeirra skulda sem þar var tekist á um hafa ekki borið árangur, sagði jafnframt í tilkynningunni.