Nýjast á Local Suðurnes

Björguðu kettinum Nölu úr ræsi á Ásbrú

Allt er gott sem endar vel, segir máltækið, og þannig fóru málin á Ásbrú þegar kettinum Nölu var bjargað úr regnvatsnlögn í hverfinu í kvöld. Íbúi á Ásbrú bað um aðstoð samborgara á íbúasíðu Ásbrúar á Facebook og er óhætt að segja að fólk hafi brugðist hratt og vel við og sýnt samhug í verki.

Nölu var bjargað úr prísundinni innan við klukkustund eftir að greint var frá málinu á íbúasíðunni Íbúar á Ásbrú – Keflavíkurflugvelli, þegar hugrakkur einstaklingur gerði sér lítið fyrir og skreið inn í ræsið og náði í köttinn. Á íbúasíðunni má sjá umræður um málið og myndbönd af björgunarstörfum.