Nýjast á Local Suðurnes

Bjarni og Hólmar taka við Njarðvík

Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur ráðið þá Bjarna Jóhannsson og Hólmar Örn Rúnarsson í stöðu þjálfara meistaraflokks félagsins til næstu tveggja ára.

Stjórn deildarinnar er virkilega spennt fyrir innkomu Bjarna og Hólmars, segir í tilkynningu. Bjarni lét af störfum sem aðalþjálfari Vestra undir lok tímabils og Hólmar lét sömuleiðis af störfum sem spilandi aðalþjálfari Víðis í Garði. Stjórn Njarðvíkur hefur trú á að Bjarni og Hólmar geti lyft knattspyrnunni í Njarðvík á næsta stig, þar sem knattspyrnan í Njarðvík á heima, segir einnig.

Þá segir í tilkynningnni að þeir Bjarni og Hólmar taki við virkilega góðu búi af fráfarandi þjálfara liðsins, Mikael Nikulássyni. Mikael var ráðinn í starf aðalþjálfara Njarðvíkur síðasta vetur og skilaði góðum árangri eftir að hafa tekið við erfiðu búi. Lið Njarðvíkur endaði í fjórða sæti 2. deildar í sumar og enn í séns að komast upp um deild þegar mótið var blásið af. Stjórn knattspyrnudeildarinnar þakkar Mikael fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðar störfum sínum.