Nýjast á Local Suðurnes

Baneitraður en vistvænn föstudagspistill Árna Árna

Vikan byrjaði með samhug þjóðarinnar með Reyknesingum sem eru sannfærðir um að mengun frá kísilverksmiðju í Helguvík sé heilsuspillandi. Kona ein í bæjarfélaginu greindi frá í fréttum að hún væri með brennda slímhúð vegna mengunar. Þjóðin fylgdist með, allavega svona með öðru auganu. En þá flétti Kastljós ofan af túttum við skelfileg skilyrði í Mosfellsbæ og þjóðin stóð á öndinni- ekki vegna mengunarinnar af sunnan.

arni arna keflavikurn

Neytendur hafa verið blekktir og talið trú um vistvæn egg og greitt fyrir það meira en venjuleg egg. Jú það er ótrúlegt að Brúnegg skyldu komast upp með það,en framkvæmdastjóri hefur viðkennt brotin og segir að myndbandið frá búinu sé gamalt og nú séu aðstæður aðrar. Er ekki í lagi að við öndum að okkur, látum skoða málið og gefum fyrirtækinu annað tækifæri. Brúnegg er ekki eina tilfellið sem við þekkjum til þar sem neytendur eru blekktir. Nokkur dæmi gengu á samskiptamiðlum um að verslanir hækkuðu vörur fyrir Black Friday til að tapa ekki krónu. Við getum í raun kennt um í þessu tilfelli, eftirlitsaðilum um að hafa ekki greint frá málinu strax og gefið fyrirtækinu tækifæri á að bæta sig. Sem það segir að nú hafi verið gert. Málið gekk svo langt að eggjum var kastað í ranga eftirlitsstofnun vegna málsins. Ég vil gefa Brúneggjum grið,tækifæri til að bæta sig og standast þær kröfur sem gerðar eru til vistvænnar framleiðslu, afhverju? Jú ef þetta fyrirtæki fer í gjaldþrot sitja bankarnir uppi með skellinn og hver borgar, jú við almenningur. Það er ódýrara hjá okkur að kaupa eggin bara áfram.

En á meðan Brúneggjum er kastað í ríkisstofnanir og heilu brettin af þeim tekin úr sölu, hefur lítið borið á umfjöllunum frá Reykjanesbæ. Er einhver í andnauð? Hverjum er ekki sama, hænsin búa við bág skilyrði og við látum ekki bjóða upp á slíkt dýraníð.

Þrátt fyrir þessi tvö alvarlegu mál vikunnar, sem ekki ber að gera grín af var mest lesna fréttin á mbl.is að kveldi miðvikudags sú, að Ívar Guðmundsson útvarpsmaður og líkamsræktarfrömuður er víst að selja. Já það er misjafnt hvað fólk hefur áhuga á þegar kemur að fréttum. Auðvitað viljum við frekar vita hvort snillingurinn Ívar sé með Ikea innréttingu, eða hvort hann sé ekki örugglega með Kartel lampa – sem nota bene hann á ekki. Ég er í sjokki yfir þessu.

Steingrímur S. Ólafsson velti fram þeirri hugleiðingu að hann væri örugglega eini íslendingurinn sem ekki á mynd af sér með Guðna forseta. En varð heldur betur hissa þegar hann fékk póst frá forsetanum. Hvern hefði grunað að forseti vor væri snjall í að klippa út dúkkulísur. Hann gerði sér lítið fyrir, prentaði út mynd af Steingrími og límdi á stóra mynd af sér og áritaði. Steingrímur var hæst ánægður en ég verð nú að segja fyrir mitt leyti að stærðarhlutföllin hefðu mátt vera betri. Steingrímur var eins og dvergur á samsettu myndinni, það má auðvitað enginn vera stærri og meiri en sjálfur Bessastaðabóndinn.

Hefðirnar eru misjafnar fyrir jólin og margir halda í þá hefð að fjárfesta í jóladagatali og njóta súkkulaðimola á hverjum degi fram að aðfangadegi. Europol, evrópulögreglan hefur sannarlega húmor fyrir þessu. Europol ætlar nefnilega að birta eina mynd á dag af glæpamönnum. Einn glæpón á dag kemur skapinu í lag. Ég sé ekki alveg jólaandann yfir þessu, en hey það er nú gaman í jólaösinni að sjá birta mynd af nágrannanum þínum sem vökvar fyrir þig blómin þegar þú ert fjarverandi. Sjá þér til skelfingar að ljúfi nágranninn er eftirlýstur.

Held mig við Reykjanesbæ, en þar er talið að íkveikja hafi valdið eldsvoða í fjölbýlishúsi þar sem meðal annars búa flóttamenn. Erum við virkilega komin á þann stað, að flóttafólk sem kemur hingað beint út flóttabúðum eftir að heimalandið hefur verið nánast allt sprengt upp, eigi í hættu á að vera brennt inni? Er þetta orðsporið sem við viljum um okkur til umheimsins? Ef satt reynist er staðreyndin svört og köld og ég skammast mín fyrir að vera íslendingur. Hvar er manngæskan ? Það er samfélagsleg skylda okkar að leggja lið þegar hörmungar steðja að úti í hinum stóra heimi, ég hreinlega trúi því ekki að íslendingar geti fundið í sér þá grimmd að brenna inni saklaust fólk.

Jæja það er ekki hjá því komist að viðurkenna að stjórnarkreppa svífur yfir landinu. Stjórnarmyndunarviðræður renna allar út í sandinn, hver af annarri – enginn vill gefa eftir, ekki einu sinni Samfylkingin. Logi formaður Samfylkingarinnar greindi frá því að Samfylkingin í öllu sínu „veldi“ ætlar ekki að gefa neinn afslátt á stefnu sinni þrátt fyrir að tæplega 50 manns hefðu sleppt því að kjósa flokkinn og enginn náð þingsæti. Gleymum því ekki að Logi er eini þingmaður Samfylkingarinnar sem náði kjöri, hinir tveir eru uppbótarþingsæti. Þjóðin hafnaði Samfylkingu og stefnunni en það á ekkert að gefa eftir, kokhraust á þeim bænum. Benedikt og Óttar eiga í leynilegu pólitísku ástarsambandi og kemur ekki til greina að taka þátt í viðræðum án hvors annars. Afhverju sameina þeir ekki bara flokkana og hætta að vera eins og ástfangnir táningar? Hvenær ætla formenn flokkana að setjast niður og gera málamiðlanir? Það liggur fyrir að það þarf að lágmarki þrjá flokka í ríkisstjórn og til að það gangi eftir þarf að gefa eftir á ýmsum sviðum. Nú reynir á Bessastaðabóndann, hann þarf að leggja frá sér dúkkulísurnar, taka af sér buffið og hrista þetta í gang.

Góða helgi