Nýjast á Local Suðurnes

Bærinn skorar á ríkið

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á stjórnvöld að lengja tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið til að bregðast við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum kórónaveirufaraldursins. Bókun þess efnis var lögð fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Bókunina má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Nú þykir ljóst að afleiðingar Covid 19 verða mun alvarlegri og langvinnari en búist var við. Því er ljóst að margir þurfa að treysta á öryggisnet ríkis og sveitarfélaga sér til lífsviðurværis. Á Suðurnesjum var atvinnuleysis farið að gæta áður en faraldurinn skall á og er staðan nú grafalvarleg.

Fyrir ári síðan fengu 195 einstaklingar fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ en þeim hefur fjölgað um 63,6% og eru nú 319. Það er því nauðsynlegt að bregðast við þessari miklu aukningu og sporna gegn henni með einhverjum hætti. Upphæð fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga er í öllum tilfellum lægri en grunnatvinnuleysisbætur og því erfitt fyrir fólk að þurfa að treysta á þær sér til framfærslu.

Mikið atvinnuleysi kemur verulega niður á tekjustofnum sveitarfélaga og gerir þeim erfitt fyrir að mæta þeim útgjaldaauka sem fylgir greiðslu fjárhagsaðstoðar.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar því á Ríkisstjórn Íslands að lengja tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið til að bregðast við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum kórónaveirufaraldursins