Nýjast á Local Suðurnes

B-52 flugvél bandaríkjahers flýgur heiðursflug þegar minnisvarði verður afhjúpaður

Minnisvarðinn sem afhjúpaður verður á morgun - Ljósmynd: Sigurður Björgvin Magnússon

Gert er ráð fyrir „heiðursflugi” B-52 Stratofortress flugvélar bandaríska flughersins yfir svæðið við Grindavíkurveg á morgun, 3. maí, þegar afhjúpun minnisvarða um það að 75 ár verða liðin frá því að bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-24D Liberator fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi þann 3. maí árið 1943.

Flugvélin sem fórst var á leið til Bandaríkjanna í fyrirhugaða sigurför sem fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð ósködduð að fljúga 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni.

Í flugslysinu fórust fjórtán manns, þar á meðal Frank M. Andrews hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu sem var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu.

Í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá þessum örlagaríka degi verður afhjúpaður minnisvarði um flugslysið við Grindarvíkurveg, fimmtudaginn 3. maí kl. 13:00. Minnismerkið er tilkomumikið og skartar meðal annars gríðarlega stórri eftirlíkingu af B-24 Liberator sprengjuflugvélinni úr ryðfríu stáli. Þá verður í kjölfarið minningarathöfn í Andrews Theater á Ásbrú, kl. 14:30.

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Bandaríkjamannsins Jim Lux og ættingjum þeirra sem fórust, með aðstoð Þorsteins og Ólafs Marteinssona.