Nýjast á Local Suðurnes

Auka kennslurými með bráðabirgðar húsnæði við Akurskóla

„Ekki lausn til framtíðar.“ Segir Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri

Færanlegar skólastofur við Akurskóla

Undanfarna daga hafa iðnaðarmenn verið að störfum við Akurskóla en unnið er að því að breyta húsnæði skólans með það að markmiði að nýta það betur. Meðal þess sem verið er að framkvæma er uppsetning á fellihurðum í rými þar sem eldri bekkjardeildir skólans hafa verið í kennslu auk þess sem verið er að bæta við þriðju færanlegu kennslustofunni  á lóð skólans.

Skólaárið 2014-2015 voru um 445 nemendur við skólann og er gert ráð fyrir að um 480 nemendur verði við nám í skólanum á næsta skólaári. Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla, segir að eins og staðan sé núna og miðað við þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar sé fjöldinn ekki orðinn of mikill fyrir skólahúsnæðið.

„Staðan í húsnæðismálum Akurskóla er viðunandi þetta árið og jafnvel næsta ef ekki verður meiri fjölgun en áætlað hefur verið af Fræðsluskrifstofu.“ Sagði Sigurbjörg

„Bæjarstjórn og fræðslustjóri hafa brugðist á skjótan og góðan hátt við þeirri fjölgun sem orðið hefur á undanförnum árum. Akurskóli er sambærilegur í stærð og Heiðarskóli í fermetrum og þar fór nemendafjöldi í um 500 nemendur þegar mest var. Við nálgumst nú þá tölu.“

Sigurbjörg sagði einnig að Akurskóli þjónaði nú tveimur skólahverfum og að huga þyrfti að framtíðarskipulagi skólamála í Innri-Njarðvík eins fljótt og kostur væri.

„Að setja niður fleiri lausar kennslustofur við Akurskóla er þó ekki lausn til framtíðar. Ég tel að bygging nýs skóla í Dalshverfi væri góður kostur. Best væri hef hægt væri að byggja skólann í ákveðnum þrepum eins og gert var til dæmis í Sæmundarskóla eða jafnvel byrja með lausar kennslustofur eins alltaf er gert í Reykjavík.“ Sagði Sigurbjörg að lokum.