Nýjast á Local Suðurnes

Auglýsa eftir starfsfólki þrátt fyrir bullandi vandræði

Flugliðar WOW-air

Vandræði lággjaldaflugfélagsins WOW-air hafa vart farið framhjá neinum sem fylgist með fréttum, en fyrirtækið sem í augnablikinu rambar á barmi gjaldþrots rær nú lífróður í viðræðum við Icelandair um yfirtöku á rekstrinum.

Forsvarsmenn fyrirtækisins eru þó að því virðist bjartsýnir að viðræður við Icelandair tryggi áframhaldandi rekstur og auglýsa eftir sumarstarfsfólki í allar deildir fyrirtækisins. WOW-air nýtir sér þjónustu ráða.is við ráðningar á starfsfólki og er hægt að skella inn umsókn með því að kíkja á vefsíðu fyrirtækisins.

Þá auglýsir stærsti þjónustuaðili WOW-air á Keflavíkurflugvelli, Airport Associates, einnig eftir starfsfólki í sumarstörf, en fyrirtækið sagði á þriðja hundruð manns upp í lok síðasta árs og endurréði stóran hluta þess fólks aftur skömmu síðar. Hjá Airport Associates vantar fólk í farþega- og farangursþjónustu, hlaðdeild og ræstingar og er umsóknarfrestur til 24. mars.